*

sunnudagur, 16. febrúar 2020
Erlent 27. desember 2017 11:09

Maðurinn sem gerði hagfræðina mannlegri

Íhaldssamir fræðimenn hafa oft á tíðum neitað að horfast í augu við þá staðreynd að mannskepnan er ekki alltaf útreiknanleg með hreinni stærðfræði.

Hörður Guðmundsson
Richard Thaler.
epa

Richard H. Thaler hlaut í byrjun október á þessu ári Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Kenningar og rannsóknir hans á sviði atferlishagfræði hafa vakið mikla athygli. Þó eru ekki allir hagfræðingar sannfærðir um ágæti þess að brúa bilið milli hagfræðinnar og sálfræðinnar.

Bandaríski hagfræðingurinn Richard H. Thaler hefur getið sér gott orð fyrir rannsóknir sínar á atferlishagfræði. Raunar hafa hugmyndir hans vakið svo mikla athygli að sænski seðlabankinn taldi æskilegt að heiðra hann með hagfræðiverðlaunum til minningar um Alfreð Nóbel fyrr á þessu ári. Fólk sem veltir sér ef til vill minna upp úr hagfræði, gæti þó hafa rekist á hann á öðrum vígstöðvum. Til dæmis þegar honum brá fyrir í kvikmyndinni The Big Short. Thaler er talinn hafa brúað ákveðið bil á milli hagfræðinnar og sálfræðinnar. Það mætti því segja að hann hafi gert fræðin örlítið mannlegri.

Hvers virði er mannslífið?

Richard H. Thaler fæddist að hausti til árið 1945 í New Jersey ríki. Hann lauk bachelor-gráðu í hagfræði við Case Western Reserve University í Cleveland, Ohio. Hagfræðin átti hug hans allan, svo hann hélt áfram í framhaldsnám og lauk þá bæði mastersgráðu og doktorsgráðu við University of Rochester. Doktorsritgerð Thalers bar afar áhugaverðan titil: The Value of Saving a Life: Evidence from the Labor Market.

Leiðbeinandi Thalers var vinnumarkaðshagfræðingurinn Sherwin Rosen. Í umræddri ritgerð reyndi Thaler að meta hversu miklu samfélag væri til í að verja til þess að bjarga mannslífi. Nánar tiltekið reyndi hann að finna hversu mikið fólk væri til í að borga til þess að minnka líkurnar á eigin dauða.

Eftir að náminu lauk hellti hann sér áfram í heim hinna döpru vísinda og fór að kenna við Rochester-háskóla. Síðar meir hóf hann kennslu við Cornell-háskóla, en honum bauðst staða sem dósent við þann skóla árið 1980 og hóf þá að klífa hinn akademíska metorðastiga þar. Síðar meir átti hann eftir að færa sig yfir til Chicago, en þá hóf hann störf við Chicago Booth School of Business.

Richard H. Thaler hefur varið nánast öllu sínu akademíska lífi í rannsóknir á atferlishagfræðinni. Þeirri hagfræðigrein má lýsa sem undirgrein hagfræðinnar, sem fæst við það að rannsaka hagfræðileg málefni út frá sjónarhorni sálfræðinnar. Atferlishagfræðin á sér nokkrar undirgreinar, en þar má til að mynda nefna atferlisfjármálin, sem hafa verið sérstaklega mikið í umræðunni eftir síðasta efnahagshrun.

Thaler er þó ekki fyrsti atferlishagfræðingurinn sem hlýtur Nóbelsverðlaunin í hagfræði frá sænska seðlabankanum. Í raun má flokka fræðimenn á borð við Robert Shiller, George Akerlof, Robert Fogel, Daniel Kahneman og Elinor Ostrom sem slíka spekinga. Samkvæmt Robert Shiller sjálfum hafa um 6% allra nóbelsverðlauna í hagfræði farið til manna sem kalla má atferlishagfræðinga. Hugmyndir þessara manna hafa oft á tíðum þótt óhefðbundnar og því hafa íhaldssamir fræðimenn oft á tíðum neitað að horfast í augu við þá staðreynd að hinn vitri vitiborni maður sé ekki alltaf útreiknanlegur með hreinni stærðfræði.

Takmörkuð skynsemi

Skynsemi mannsins er oftast nær takmörkuð, að minnsta kosti halda atferlisfræðingarnir því fram. Fólk getur verið takmarkað af ýmsum þáttum, til að mynda af tíma og upplýsingum. Tilfinningar geta einnig skipt sköpum og þar af leiðandi haft gífurleg áhrif á ákvörðunartöku.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér.