Það þykir engin nýlunda þegar fréttist af nýju hlutafjárútboði á vesturströnd Bandaríkjanna, enda spretta þar upp nýsköpunarfyrirtæki á degi hverjum. Mike Merrill var árið 2008 einn af þeim fjölda hugmyndaríkra einstaklinga sem taldi sig geta búið eitthvað nýtt og spennandi til, en vantaði fjármagnið.

Félaga Mike Merrill rak hins vegar í rogastans þegar hann greindi þeim frá því hvernig hann ætlaði að afla fjárins. Hann ætlaði sér ekki að selja hlutabréf í fyrirtæki, heldur í sjálfum sér. Í mjög einföldu máli ákvað hann að í honum væru 100.000 hlutir og að nafnvirði hvers þeirra væri einn dalur. Hluthafar í Mike Merrill væru að kaupa sér hlut í öllum aukatekjum sem hann aflaði sér utan dagvinnunnar. Á tólf dögum í ársbyrjun 2008 seldi Merrill 929 hlutabréf í sjálfum sér til tólf vina og kunningja.

Hann hélt eftir þeim 99,1% af hlutabréfunum sem eftir voru, en hét því að hlutabréfum í hans eigin eigu fylgdi ekki atkvæðisréttur. Atkvæðisrétturinn er nefnilega lykillinn að þessari tilraun Merrills. Hann leit svo á, og lítur enn, að hlutafjárútboð hafi leikið lykilhlutverk í velgengni fyrirtækja eins og Google og Amazon og að það ætti að virka fyrir hann líka. Merrill hefur hins vegar tekið þetta lengra en flestir. Hann taldi að fleiri myndu vilja fjárfesta í honum ef þeir vissu að þeir myndu hafa eitthvað um það að segja hvað hann eyddi tíma sínum í. Hann lét búa til vefsíðu þar sem hluthafar geta ekki aðeins keypt og selt hlutabréf í honum, heldur greiða þeir atkvæði um ýmsar tillögur og spurningar sem hann leggur fyrir hluthafahópinn. Það hvaða spurningar eru lagðar fyrir hluthafana hefur þróast eftir því sem liðið hefur á og hafa hluthafarnir núna mun meira vald en þeir höfðu í upphafi.

Þegar Merrill fór, að undirlagi hluthafanna, að leita sér að konu hitti hann Marijke Dixon. Henni þótti hluthafaævintýrið stórskemmtilegt og keypti strax hlut í manninum. Að loknum nokkrum stefnumótum var ákveðið að skrifa undir þriggja mánaða sambandssamning og að honum liðnum setti Dixon fram kröfu um kaupréttarákvæði í samningnum. Var ákveðið að hún hefði rétt á að kaupa 100 hluti í Merrill á lokagengi dagsins sem hluthafar samþykktu sem nýjan sambandssamning.

Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins, kom út á mánudaginn. Í blaðinu eru auk umfjöllunar um Mike Merrill, viðtal við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra, Ásdísi Kristjánsdóttur hagfræðing, Þorstein Baldur Friðriksson, stofnanda Plain Vanilla, og Hugleik Dagsson svo dæmi séu nefnd. Þá er umfjöllun um veiði, Kardashian-hagkerfinu gerð skil sem og launum helstu knattspyrnumanna. Að auki er margt, margt fleira....