Jón Sigurðsson á líklega mest allra þátt í vexti og velgengni Össurar undanfarinn aldarfjórðung. Jón tilkynnti fyrr í dag að hann láti af störfum sem forstjóri félagisns 1. apríl og Sveinn Sölvason, fjármálastjóri fyrirtækisins taki við . Össur var stofnað árið 1971 af Össuri Kristinssyni. Þegar Jón tók við stjórnartaumunum árið 1996 voru starfsmennirnir um 40 en í dag eru þeir um 4.000 og veltan yfir 90 milljarðar króna.

Í viðtali við Frumkvöðlablað Viðskiptablaðsins árið 2015 rakti Jón hvernig kom til að hann hóf störf hjá Össuri en hann var á þeim tíma viðskiptafulltrúi í Fastanefnd Íslands í New York. „Eftir að það kom upp ósætti á milli stjórnar Össurar og þáverandi framkvæmdastjóra, Tryggva Sveinbjörnssonar, varð úr að ég tæki við sem forstjóri. Það var greiðsluvandamál á þeim tíma og við fórum fljótlega í skuldabréfaútboð upp á 75 milljónir íslenskra króna. Ég þakka Sigurði B. Stefánssyni fyrir að aðstoða okkur þarna til að byrja með. Bankarnir vildu ekki lána og hann sagði þá að við þyrftum ekkert að banka á dyrnar hjá bankastjóra heldur ætti frekar að fara í skuldabréfaútgáfu. Þarna var því farið að bera við annan tón varðandi fjármögnun fyrirtækja. Það gekk vel og við fengum mikilvægt fjárhagslegt svigrúm þá. Eins og alltaf er, þegar við vorum komin með fjárhagslegt svigrúm, þá vildu allir fara að lána okkur en við þurftum þá ekki á því að halda," sagði Jón í viðtalinu.

„Á þessum tíma var fyrirtækið takmörkunum háð enda eingöngu ein vara og einn dreifiaðili sem sá um heimsdreifingu. „Það var ekki hægt að koma sölukerfi á laggirnar með eina vöru, til þess verður að hafa miklu breiðara vöruúrval. Ein vara ber það ekki á ekki stærri markaði. Um leið og ég kom til fyrirtækisins byrjaði ég því að undirbúa það að fara með það út á hlutabréfamarkað. Ég var klár á því að annaðhvort myndum við kaupa upp önnur fyrirtæki eða selja fyrirtækið því þetta gat ekki gengið svona með eina vöru og ekkert dreifikerfi. Auk þess að þótt fyrirtæki fari ekki á markað, þá er gott að undirbúa fyrirtækið þannig, það er ákveðið heilbrigðisvottorð. Síðan árið 1999 voru aðstæður þannig á Íslandi að það gekk vel að fara á markað. Þá blésu öðruvísi vindar en höfðu gert áður. Þetta var okkar leið út úr þessari stöðu sem við vorum í sem lítið fyrirtæki með eina vörulínu og takmarkað dreifikerfi. Strax og við fengum fjármagn þá fórum við í það að kaupa fyrirtæki og koma upp heillegri vörulínu og byggja upp öflugt dreifikerfi," bætti Jón við.

Þakklátur Kaupþingi

Össur keypti árið 2000 fyrirtækið Flex-Foot í Bandaríkjunum á 72 milljónir Bandaríkjadala sem olli stakkaskiptum í rekstri félagsins. Jón hefur sagt kaupin hafi í reynd verið lykillinn að uppbyggingu félagsins næstu árin.

„Þá var kominn vísir að vörulínu og Flex-Foot var með beina dreifingu í Bandaríkjunum sem var mjög flott. Það verður að segja að Kaupþing gerði þetta allt mögulegt og var gríðarlega mikilvægur bakhjarl þarna í byrjun. Ég man eftir því að Sigurður Einarsson og Þórður Pálsson komu með mér út til þess að sannfæra FlexFoot menn um að við gætum fjármagnað þetta. Það fylgdi síðan öllum þessum fyrirtækjakaupum að það var fylgt ákveðinni stefnu og það var aldrei farið út af henni. Við keyptum bara fyrirtæki þar sem við værum betri eigendur en aðrir. Við vorum ekkert að fara út í eitthvað sem við skildum ekki. Vorum bara þar sem við vorum betri en flestir," sagði Jón í viðtalinu.

Duttu úr tísku í bankabólunni

„Svo gerist það, sem er nokkuð undarleg saga. Við vorum mjög vinsælt fyrirtæki á hlutabréfamarkaði í byrjun, sjálfsagt því það voru ekki margir möguleikar. Við vorum þarna árið 2000 spennandi fyrirtæki og hljótum stuðning fjárfesta. Það sem gerist þá er uppgangstími bankanna og mikið breytingaskeið á sér stað. Hlutabréfamarkaður fer úr ökkla í eyra og þá misstu allir áhugann á Össuri. Árið 2004 var Össur ekkert spennandi fyrirtæki. Þá voru fyrirtæki eins og FL Group, Exista og í raun allir íslensku bankarnir að gera það rosalega gott og það var mikið um að vera. Fjárfestar fóru því þangað því þar var ávöxtunin, ofurávöxtun, sem við gátum ekki keppt við."

„Við reyndum að vinna á móti þessu og fórum erlendis og þar voru allt aðrar móttökur. Þar gekk mjög vel að fá aðila að félaginu og þeir keyptu hlutabréf í gegnum hlutabréfamarkað á Íslandi. Við fengum fljótlega stóra alþjóðlega hluthafa að félaginu og þar má nefna að Fidelity sjóðurinn, sem er stærsti fjárfestir í heimi, varð hluthafi. William Demant byrjaði að fjárfesta í félaginu árið 2003 og er í dag stærsti eigandinn."

Fastir inni í gjaldeyrishöftum

„Þegar hrunið kemur fórum við vel úr því. Þessi erlendu eigendur voru einhvern veginn alltaf vissir um að þetta myndi ekki ganga á Íslandi. Það varð til þess að við sáum þetta koma mjög fljótt og vorum búin að undirbúa okkur mjög vel og biðum eftir þessu. Þess vegna vorum við líklega eina félagið í Kauphöllinni sem fer í gegnum þetta án fjárhagslegrar endurskipulagningar. Við borguðum bara okkar lán í Kaupþingi og fjármögnuðum okkur erlendis. Þá gerist það að erlendir fjárfestar eru læstir inni á Íslandi. Við vorum sem betur fer búin að byggja upp gott fjárhagslegt vörumerki erlendis á löngum tíma. Sú markaðssókn byggist á að gera alltaf það sama, hafa fasta stefnu og breyta ekki út af henni. Taka aldrei neinar hjáleiðir." sagði Jón í Frumkvöðlablaðinu árið 2015.

Vildu úr íslensku kauphöllinni

Össur fór endanlega úr íslensku kauphöllinni undir lok árs 2017 eftir að hafa lengi viljað komast út en félagið er nú einungis skráð á markað í Danmörku. Í viðtali við Viðskiptablaðið nokkrum mánuðum, fyrr í ágúst 2017 rakti Jón ástæðu þess að félagið vildi komast úr íslensku kauphöllinni. „Um 70% hluthafa okkar eru erlendis og því viljum við einungis vera skráð á hlutabréfamarkað erlendis. Það sem gerðist var að þegar allt var á suðupunkti hér árin 2003 til 2004 misstu íslenskir fjárfestar áhuga á rekstrarfélögum á borð við Össur. Þá fórum við að leita út fyrir landsteinana og fengum mjög góðar viðtökur hjá erlendum fjárfestum. Þeir fjárfestu í fyrirtækinu og voru komnir með um 60% af hlutafénu þegar allt hrundi hér árið 2008. Svo gerðist það að þeir gátu náttúrulega ekki stundað viðskipti með gjaldmiðli sem var ekki gjaldgengur. Erlendu hluthafarnir gerðu þá kröfu að við gerðum eitthvað í málunum. Þannig að við skráðum Össur á markað í Danmörku í september 2009 og ætluðum að afskrá félagið á Íslandi samhliða því. En kauphöllin á Íslandi ákvað að taka hlutabréf Össurar aftur til viðskipta, án samþykkis fyrirtækisins. Við vorum þvinguð í skráningu hér. Sjónarmiðið þeirra var að ef til hlutafjáraukningar kæmi gætu íslenskir fjárfestar ekki tekið þátt í henni. En nú er því ekki til að dreifa. Við höfum ekki þurft og þurfum sjálfsagt ekki neina hlutafjáraukningu. Gjaldeyrishöftin eru farin. Þá eru nánast engin viðskipti með bréfin hér á landi. Þannig að við teljum þessa hliðarskráningu hér á landi vera barn síns tíma. Það er ástæðulaust að halda henni uppi og vonandi losnum við við hana," sagði Jón á sínum tíma.