Í bók sinni „Í krafti sannfæringar“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson frá fundi sínum og Markúsar Sigurbjörnssonar í garðinum bak við heimili þess síðarnefnda. Markús var á þessum tíma forseti Hæstaréttar.

Í bókinni segir Jón Steinar að hann hafi sent inn umsókn um embætti hæstaréttardómara 19. águst 2004. Jón Steinar segist hafa fengið öruggar spurnir um að dómarar við Hæstarétt hefðu hafið leit að umsækjendum sem gætu skákað honum. Meðal þeirra var Markús, sem að sögn Jóns bauð mögulegum umsækjanda til kvöldverðar á Hótel Holti.

Um svipað leyti og Jón Steinar sótti um fór fundur þeirra Markúsar fram.

Í bókinni segir Jón að fundurinn hafi verið sér minnistæður og segist halda að nágrannar hans hafi misst af þeirri skemmtan sem þeir hefðu sjálfsagt haft ef þeir hefðu heyrt samtalið.

„Maðurinn varð æfur af bræði. Virtist gagnrýni mín á dóm hans og tilkvaddra varadómara í mínu eigin máli í eftirmálum prófessorsmálsins eiga þar ríkan þátt. Sakaði hann mig meðal annars um að hafa stjórnað því að sonur minn hefði sent honum tölvupóst og fundið að þessum dómi hans. Ég gæti ekki búist við því að koma inn í Hæstarétt á rauðum dregli og heldur ekki á jarðýtu.“ segir í bók Jóns.

Bréf sonar Jóns er birt í heild sinni í bókinni, en í því kemur fram hörð gagnrýni á störf Markúsar og annarra sem dæmdu í umræddu máli. Bréfið var sent í tölvupósti 24. mars 2002.