Nicolas Maduro, forseti Venesúela, hefur nú lýst yfir neyðarástandi í landi sínu, sem varir í sextíu daga. Þetta gerir hann á grundvelli þess að leyniþjónustur Bandaríkjamanna áætli að bylta ríkisstjórn hans og fremja valdarán. Reuters segir frá þessu.

„Bandaríkin eru í slagtogi við venesúelska fasíska hægriflokka, sem hafa séð sóknartækifæri eftir að valdarán var framið í Brasilíu,” sagði Maduro í ríkissjónvarpinu og vísar þar með til kæru Brasilíska þingsins á hendur Dilma Rousseff.

Ekki hefur enn verið upplýst um hvað nákvæmlega það er sem neyðarástandið kemur til með að fela í sér. Neyðarástandi var lýst yfir í einhverjum héruðum á síðasta ári og hafði þá það í för með sér að einhverjir liðir stjórnarskrár Venesúela misstu gildi sitt.

Efnahagsástandið í Venesúela hefur versnað á síðustu misserum. Skortur er á framboði af mat og lyfjum, auk þess sem rafmagn er af skornum skammti. Glæpatíðni hefur hækkað hratt og verðbólga er í hæstu hæðum.