Upptaka myntráðs myndi skapa „óásættanlega áhættu“ fyrir fjármálastöðugleika á Íslandi að mati starfshóps um endurskoðun peningastefnunnar. Ástæðan er fyrst og fremst sú að íslenskar fjármálastofnanir myndu standa eftir án lánveitanda til þrautavara. Sögulega hefur Íslendingum einnig skort aga í hagstjórninni til þess að geta framfylgt fastgengisstefnu.

Myntráð felur í sér varanlegt fastgengi við annan gjaldmiðil eða körfu gjaldmiðla. Upptaka myntráðs var eitt af kosningamálum Viðreisnar fyrir síðustu Alþingiskosningar.

Starfshópurinn skilaði tillögum til ríkisstjórnarinnar um endurbætur á peningastefnu Íslands í vikunni. Í starfshópnum áttu sæti Dr. Ásgeir Jónsson, dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands, Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, og Illugi Gunnarsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hópurinn telur sjálfstæða peningastefnu geta gengið upp hér á landi, meðal annars ef Seðlabankinn fær aukna ábyrgð til að standa vörð um áhættu í fjármálakerfinu.

Hópnum var meðal annars falið að greina og meta aðra valkosti við stjórnun peningamála á Íslandi en verðbólgumarkmið og sjálfstæða mynt. Ekki er mælt með því að Ísland taki upp myntráð við núverandi aðstæður.

Í skýrslu starfshópsins segir að myntráð feli í sér að Seðlabankinn verði lagður niður í núverandi mynd, sem þýðir að íslenska fjármálakerfið yrði án lánveitanda til þrautavara. Íslenskt bankakerfi yrði því í grundvallaratriðum óstöðugt og gæti fallið saman í áhlaupi.

Aðlögunarferli myntráðs krefst þess að vextir þróist á frjálsum markaði eftir framboði og eftirspurn eftir lausafé. Að mati skýrsluhöfunda setur það gríðarlegan þrýsting á fjármálakerfið, sem verður að geta þolað lausafjárþurrð og vaxtatoppa án þess að tapa trúverðugleika sínum innanlands sem utan.

Jafnframt sé erfitt að tryggja efnahagslegan stöðugleika undir myntráði. Það væri aðeins hægt með umfangsmiklum kerfisbreytingum hér á landi, svo sem á vinnumarkaði. Íslandi hafi hins vegar skort verulega aga í ríkisfjármálum og á vinnumarkaði til þess að framfylgja fastgengisstefnu.

Við inngöngu Íslands í myntbandalag Evrópu og upptöku evrunnar myndi Seðlabanki Íslands áfram starfa sem útibú frá hinum evrópska seðlabanka. Sem slíkt gæti hann ekki lengur ákvarðað sérstaka peningastefnu fyrir Ísland, en gæti áfram þjónað sem lánveitandi til þrautavara fyrir íslenskt fjármálakerfi.

Ósammála sænskum hagfræðingum

T veir sænskir sérfræðingar, sem nefnd um endurskoðun peningastefnunnar fékk til þess að veita íslenskum stjórnvöldum ráðgjöf í peningamálum, telja á hinn bóginn heppilegast fyrir Ísland að taka upp fastgengisstefnu, til dæmis myntráð. Ómögulegt sé fyrir Íslendinga að reka sjálfstæða peningastefnu án hafta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .