Sextán þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum lögðu fram þingsályktunartillögu á Alþingi í dag þar sem lagt er til að atvinnuvega - og nýsköpunarráðherra skipi nefnd sem undirbúi aðskilnaður viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi í þeim tilgangi að lágmarka áhættu af áföllum í rekstri banka fyrir þjóðarbúið. Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, mælti fyrir málinu.

Lagt er til að nefndin skili tillögum um aðskilnað bankarekstrarins fyrir 1. febrúar á næsta ári.

Í greinargerð með tillögunni eru m.a. talin til þau rök í málinu að bankar og sparisjóðir hafi nýtt innlán frá einstaklingum og smærri fyrirtækjum ekki aðeins í hefðbundin útlán heldur var reynt að ávaxta féð með áhættusömum útlánum til tengdra aðila og óarðbærum fjárfestingum, m.a. í fyrirtækjum sem voru nátengd eigendum þessara sömu fjármálastofnana.

Þá segir í tillögunni að vegna þess að innlán njóta sérstakrar verndar er rík ástæða til að aðskilja slíka starfsemi frá áhættusækinni fjárfestingarbankastarfsemi. Með því að sinna bæði viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi í einu voru bankarnir í aðstöðu til að misnota auðvelt aðgengi sitt að fé viðskiptavina sinna með því að verja því í áhættusöm útlán og fjárfestingar.

Þingsályktunartillagan