Fjármálaeftirlitið hefur lokið könnunar- og matsferli á stóru viðskiptabönkunum þremur, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum. Helsta niðurstaða þess er að mælt var fyrir um hærri eiginfjárgrunn en sem nemur 8% af áhættugrunni hjá bönkunum þremur að því er fram kemur á vef eftirlitsins.

Ákvörðunin er grundvöllur nýrrar lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn sem hlutaðeigandi bönkum ber að fullnægja auk þess sem þeim ber að viðhalda samanlagðri kröfu um eiginfjárauka. Þá beindi Fjármálaeftirlitið ýmsum athugasemdum og ábendingum til bankanna og fór fram á viðeigandi úrbætur í þeim tilvikum þegar gerðar voru athugasemdir.

Hvetja bankana til að gera sjálfa grein fyrir kröfunni

Fjármálaeftirlitið birtir ekki upplýsingar um lágmarkskröfu stofnunarinnar um eiginfjárgrunn en hvetur bankana til að gera grein fyrir kröfunni opinberlega í tengslum við reglubundna birtingu þeirra á fjárhagsupplýsingum.

Í matinu lagði Fjármálaeftirlitið mat á þá áhættuþætti sem felast í starfsemi fjármálafyrirtækis, hvort ráðstafanir bankanna gagnvart þeim séu nægjanlegar, hvort stjórnun þess sé traust og hvort eiginfjárgrunnur þeirra sé fullnægjandi.

Meðal annars var lagt mat á viðskiptaáætlanir bankanna, lífvænleika viðskiptalíkana þeirra og sjálfbærni viðskiptastefnu þeirra, en nánar má lesa um málið á vef stofnunarinnar .