Styrking krónunnar undanfarnar vikur gefur fullt tilefni fyrir Seðlabankann að hefja regluleg kaup á gjaldeyri að nýju til að auka við óskuldsettan hluta gjaldeyrisforðans. Þetta er mat greiningar Íslandsbanka sem bendir á það í Morgunkorni sínu í dag að gengi krónunnar er nú einungis tæplega 2% frá því að vera jafn hátt gagnvart viðskiptaveginni körfu gjaldmiðla og þegar hún var sterkust í fyrra. Gengi krónunnar er nú mun sterkara en allt síðastliðið haust og fram að áramótum þegar bankinn var í reglulegum kaupum á gjaldeyri.

Í Morgunkorninu segir að framundan er ferðamannasumar með tilheyrandi gjaldeyrisinnflæði sem fylgi miklum ferðamannastraumi til landsins.

„Nauðsynlegt er að Seðlabankinn nýti þetta til að efla óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð bankans sem er afar lítill, sérstaklega í ljósi þess að ráðgert er að afnema gjaldeyrishöftin á næstunni,“ segir í Morgunkorninu og rifjað upp að Seðlabankinn hafi gert hlé á reglulegum gjaldeyriskaupum sínum í byrjun þessa árs til að jafna flæði á gjaldeyrismarkaði.