Markaðurinn vanmetur vaxtartækifæri Marel og því felast tækifæri fyrir fjárfesta til að kaupa hlutabréf fyrirtækisins, að mati Fyrirtækjagreiningar Arion banka. Í greiningu deildarinnar á Marel segir m.a. að þrátt fyrir 14% hækkun á gengi hlutabréfa Marel frá áramótum þá eigi fyrirtækið góða möguleika á að vaxa umfram markaðinn á næstu árum.

Virðismat Fyrirtækjagreiningarinnar á Marel er 180,5 krónur á hlut sem er um 26% hækkun miðað við núverandi markaðsverð.

Þá vekur Fyrirtækjagreining Arion banka athygli á því að Marel er skráð félag með nær allar tekjur sínar í erlendri mynt, sem fjárfestar geti eignast fyrir krónur. Á tímum gjaldeyrishafta séu slíkar eignir fágætar.

Gott boð hjá Landsbankanum

Landsbankinn opnaði í vikunni fyrir tilboð í 5% í Marel á verðbilinu 138 til 142 krónur á hlut. Fyrirtækjagreiningin segir að í ljósi verðmatsins sé tilboð Landsbankans til fjárfesta gott og ráðleggur þeim að nýta sér tækifærið. Til samanburðar stendur gengi hlutabréfa í Marel stendur nú í 143,5 krónum á hlut.