IFS telur Icelandair Group vera áhugaverðan langtíma fjárfestingarkost og mælir með kaupum á bréfum félagins.

Þetta kemur fram í nýju verðmati sem IFS Greining sendi viðskiptavinum sínum í morgun. Þar segir að niðurstaða sjóðstreymismats IFS á Icelandair Group sé 5,4 kr. á hlut. Til samanburðar sé síðasta gengi félagsins 4,46 kr. á hlut og mat IFS frá því í september 4,0 kr. á hlut.

„Við metum að undirliggjandi rekstur félagsins sé meira virði en viðskiptagengið gefur til kynna. IFS metur í framhaldi af því að gengi félagsins á næstu sex mánuðum, miðað við núverandi markaðsaðstæður, geti farið upp í 5,7 kr. á hlut,“ segir í verðmatinu.

Þá segir að töluverð hækkun á gengi Icelandair Group frá áramótum hafi fært verðkennitölur félagsins nær samanburðarfélögum.

„IFS metur framtíðarvöxt félagsins góðan. Fjárhagslegri endurskipulagningu á skuldum og afborgunarferlum lána er lokið. Þá hefur eigið fé verið aukið verulega,“ segir í verðmatinu.

„Stefna félagsins hefur verið mörkuð sem alhliða rekstrarfélag í ferðamannaiðnaði. Að mati IFS hefur félagið ýmsa möguleika til innri vaxtar.“

Þá fjallar IFS um ársuppgjör Icelandair Group sem birt var nýlega og segir síðasta ár hafa verið gjöfult. Markaðsgengi Icelandair Group sé nú um 4,46 kr. á hlut en mat IFS sé að virði hvers hlutar sé 5,4 kr. á hlut eða rúmum 20% hærra en núverandi markaðsgengi. Einnig segir IFS að samningur Icelandair Group um viðskiptavakt við Landsbanka Íslands og Saga fjárfestingarbanka stuðli að aukinni dýpt og gegnsærri verðmyndun með bréf félagsins. Einnig sé í skoðun að skrá hlutabréf félagsins í erlenda kauphöll sem gæti stuðlað enn frekar að auknum seljanleika bréfanna.