Tekjuháir einstaklingar og fyrirtæki sem vegnaði vel í heimsfaraldrinum ættu tímabundið að greiða hærri skatta til að sýna samstöðu með þeim sem faraldurinn bitnaði mest á, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

Tímabundinn skattur myndi draga úr félagslegum ójöfnuði sem hefur aukist á síðastliðnu ári, að því er kemur fram í skýrslu sjóðsins um fjármál hins opinbera (IMF Fiscal Monitor) sem kemur út tvisvar á ári. Einnig myndi þetta fullvissa þá sem hafa orðið fyrir barðinu á efnahagslægðinni að baráttan gegn Covid sé sameiginlegt átak innan hvers samfélags.

Vitor Gaspar, fjármálastjóri AGS, sagði í viðtali við Financial Times að þjóðir ættu að íhuga þessa stefnu svo að almenningur skynji að „allir leggi sitt af mörkum fyrir hið nauðsynlega átak fyrir bataveginn eftir Covid-19“, jafnvel þó slík stefna væri ekki áríðandi fyrir fjármál hins opinbera.

Sjóðurinn sagði að þróuð ríki með sterk skattkerfi ættu tímabundið að hækka tekjuskattinn í hæsta skattþrepinu og vísaði þar í „samstöðuskattinn“ við sameiningu Þýskalands árið 1990. Einnig ætti að íhuga sérstakan skatt fyrir umframhagnað hjá fyrirtækjum sem voru með óvenju háa afkomu árið 2020.