IFS Greining mælir með því í nýju verðmati að fjárfestar haldi í hlutabréf sín í Icelandair Group. Fyrirtækið metur bréf félagsins á 11,3 krónur á hlut og að níu til tólf mánaða markgengi sé 11,9 krónur á hlut.

Morgunblaðið greinir frá þessu í dag og segir í tengslum við verðmatið sem gefið var út fyrir tveimur dögum að Icelandair hafi tekist að vaxa og skila hagnaði á sama tíma og það hyggi á mikinn vöxt á næstu fimm til sjö árum. Félagið keypti nýverið 16 nýjar Boeing 737-vélar sem verða afhentar á árunum 2018 til 2021 og hefur kauprétt að átta til viðbótar. Á sama tíma er ekki stefnt að því að selja eldri flugvélar heldur nýta þær til frekari vaxtar.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, keypti í gær hlutabref í fyrirtækinu fyrir 3,5 milljónir króna á genginu 11,5 krónur á hlut. Það gerði líka Sigurður Helgason, stjórnarformaður félagsins, fyrr í mánuðinum. Hann keypti hlutabréf í Icelandair Group fyrir 42,2 milljónir á genginu 10,55 krónur á hlut. Björgófur á hlutabréf í Icelandair Group fyrir 15 milljónir króna samkvæmt gengi bréfa félagsins í gær en Sigurður fyrir um 150 milljónir.