Fyrirtækjagreining Arion banka verðmetur hlutabréf fasteignafélagsins Regins á 13,8 krónur á hlut í nýjasta verðmati sínu sem birt var í dag. Þetta er 3% hærra en markaðsgengi bréfa félagsins og er mælt með því að fjárfestar haldi í hlutabréf sín í félaginu. Gengi bréfa Regins hefur hækkað nokkuð á síðustu tveimur viðskiptadögum. Það stóð í 13,35 krónum á hlut á mánudag en endaði í 13,5 krónum í dag eftir 0,75% hækkun. Þetta gerir 1,1% hækkun á tveimur dögum. Hlutabréf fasteignafélagsins voru skráð á markað í júlí í fyrrasumar á genginu 8,2 krónur á hlut. Það hefur hækkað um tæp 65% síðan þá.

Í mati fyrirtækjagreiningar Arion banka segir m.a. að með endurfjármögnun á Smáralind og Egilshöll í fyrrahausti hafi fjárfestingargeta Regins aukist þótt skuldsetning beggja eigna hafi aukist frekar. Við þetta hafi orðið til meira lausafé sem félagið hafi nýtt til frekari fjárfestinga og uppgreiðslu lána í dótturfélagi.

Að auki er bent á að þótt Regins sé skuldsettari en erlend samanburðarfélög þá sé svo ekki á íslenskan mælikvarða.

„Að okkar mati er ekkert sem réttlætir hærri skuldsetningu hér á landi samanborið við önnur lönd, þvert á móti mætti jafnvel færa rök fyrir því að stuðpúðinn ætti að vera meiri hér á landi vegna reglulegra verðbólguskota. Þó er hærri skuldsetning kannski fyrirgefanleg á meðan félagið er í vaxtarfasa og eins ef horft er til verðs á fasteignum með tilliti til byggingakostnaðar,“ eins og segir í verðmatinu.