Jón Þórisson, forstjóri VBS Fjárfestingabanka.
Jón Þórisson, forstjóri VBS Fjárfestingabanka.
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Jón Þórisson, fyrrverandi forstjóri VBS fjárfestingarbanka, og starfsfólk.

VBS Fjárfestingarbanki og stjórnendur hans koma illa út í skýrslu nefndar sem skoðaði fjárfestingar lífeyrissjóðanna í aðdraganda hruns. Í skýrslunni sem kom út á föstudag segir að stjórnun VBS hafi verið í molum eftir að nýir eigendur komu að honum nokkru fyrir fall viðskiptanna. Skýrsluhöfundar segja athugandi að sækja skaðabætur á hendur fyrrverandi stjórnendum bankans.

Fram kemur í lífeyrissjóðaskýrslunni að stjórnendur VBS fóru út fyrir heimildir í eignastýringu í viðskiptum við bæði Eftirlaunasjóð starfsmanna Hafnarfjarðarkaupsstaðar og lánuðu fjármuni Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga (LSS) til framkvæmda sem voru ekki hafnar. Sjóðurinn varð að afskrifa 503 milljónir króna eftir viðskipti sín við VBS og sendi kæru á hendur bankanum til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

VBS var fyrirferðamikill í svokölluðum ástarbréfaviðskiptum á milli gömlu viðskiptabankanna og Seðlabankans. Eftir að viðskiptabankarnir fóru á hliðina haustið 2008 var kröfu Seðlabankans upp á 26,4 milljarða króna á hendur VBS breytt í lán. Hann fór hins vegar í þrot vorið 2010 og hafði þá ekki greitt krónu af láninu.

Helsti hluthafi VBS var fjárfestingarfélagið IceCapital með tæpan 13% hlut. Félagið var í eigu Sunds, félags Gunnþórunnar Jónsdóttur, Gabríelu Kristjánsdóttur og Jóns Kristjánssonar. Aðrir stórir hluthafar VBS voru Sparisjóður Mýrarsýslu, Sparisjóðurinn í Keflavík, Byr og Icebank. Jón Þórisson, forstjóri VBS, átti rúman 3% hlut í bankanum.

Hafnfirðingar hótuðu VBS málssókn

Í viðskiptum bankans við Eftirlaunasjóð starfsmanna Hafnarfjarðarkaupsstaðar stóð VBS ekki við munnlegan samning um eignastýringu sem fól í sér kaup á veðskuldabréfum umfram heimildir og það utan höfuðborgarsvæðsins. Viðskiptin gengu ekki til baka fyrr en framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins hótaði málssókn á hendur bankanum. Veðskuldabréfin voru flutt á fasteignaverkefnin innan borgarmarka. Óvíst er hins vegar um heimtur þeirra.

Þá hafði Eftirlaunasjóðurinn keypt hlutabréf í Nordea Bank og SE Bank í Svíþjóð. Hlutabréfin voru vistuð hjá bandaríska fjárfestingarbankanum Lehman. VBS átti að sjá til þess að eignirnar yrðu skráðar á Eftirlaunasjóðinn. Eftir bankahrunið reyndist svo ekki vera.

LSS kærði VBS til efnahagsbrotadeildar

Fram kemur í lífeyrissjóðaskýrslunni að LSS setti fjármuni í í verktakafjármögnun hjá VBS. Vel gekk til að byrja með og leiddi það til þess að lífeyrissjóðurinn innleysti ekki fjármunina heldur endurfjárfesti þá. Verklag var með þeim hætti að verkfræðistofa tók út framkvæmdir og voru þær fjármagnaðar eftir því sem verkinu miðaði áfram.

Þegar VBS komst í hendur nýrra eigenda var horfið frá áðurnefndu verklagi en þess í stað lánað út á framkvæmdir sem ekki voru hafnar. Lífeyrisjóðurinn kærði málið til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra en það skilaði engu.

Höfundar lífeyrissjóðaskýrslunnar segja að vissulega virðist háttsemi VBS jaðra við svik þar sem vikið var frá föstu verklagi við fjárfestingar. Þótt ríkislögreglustjóri hafi ekki sinnt málinu þá geti verið athugandi fyrir sjóðinn að höfða skaðabótamál á hendur VBS og þeim sem tóku við stjórninni eftir eigendaskiptin.