Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir FME ekki mæla með því að settar séu séríslenskar reglur um fjármálamarkaði og því mæli eftirlitið ekki með aðskilnaði viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Kom þetta fram í máli hennar á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga um aðskilnað þessarar starfsemi. Sagði hún jafnframt að þegar skoðaðir væru þeir bankar sem verst fóru út úr hruninu 2008 væru það ekki alhliða bankar sem verst fóru, heldur annað hvort hreinir viðskipskiptabankar eins og Northern Rock í Bretlandi, eða fjárfestingarbankar eins og Bear Stearns og Lehman Brothers í Bandaríkjunum. Undirliggjandi stefna bankanna virðist því frekar hafa ráðið því hvernig fór heldur en rekstrarformið.

Höskuldur Ólafsson, forstjóri Arion banka, sagði á sama fundi að þegar hrunið 2008 sé skoðað sé líklegra að fjárfestingarstarfsemi íslensku bankanna frekar en fjárfestingarbankastarfsemi þeirra hafi valdið vandanum. Þessi skilgreiningarmunur sé mikilvægur. Lítið fé hafi verið bundið í fjárfestingarbankastarfsemi þeirra þótt þeir hafi verið umfangsmiklir í fjárfestingum. Hæpið að halda því fram að Ísland hefði sloppið við hrunið ef þessi starfsemi hefði verið aðskilin. Benti hann á að í þeim löndum, sem sluppu hvað best, Noregi og Svíþjóð, sé aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka ekki bundinn í lög. Meira máli hafi skipt að stutt sé síðan þessi lönd hafi gengið í gegnum bankakreppu og hafi því forðast mistök sem gerð voru annars staðar.