Hún var nokkuð ólík sýnin sem formenn flokkanna viðruðu í pallborðsumræðum í blálok Iðnþings Samtaka iðnaðarins í dag. Þar voru þeir m.a. spurðir út í afstöðu sína til aðildarviðræðna stjórnvalda við Evrópusambandið. Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, hafði fyrr á þinginu gagnrýnt þá sem vilji slíta viðræðunum. Það sagði hún glapræði. „Ísland getur ekki verið einangrað. Afraksturinn er hungur og dauði,“ sagði hún.

Vill skýrt umboð

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á  landsfundi flokksins í febrúar 2013.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi flokksins í febrúar 2013.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði sem fyrr vanda umsóknarferlisins hafa frá upphafi falist í skorti á lýðræðislegu umboði og því ætti að slíta viðræðum og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald þeirra. „Við höfum lagt áhersluá að viðræðurnar byggðust á skýru lýðræðislegu umboði. Það tryggir skýrt umboð. Við þessar aðstæður búum við enn við það ótrúlega ástand að þurfa að setjast við samningaborðið en þeir sem sitja við borðið fyrir okkar hönd þurfa að lotunni lokinni að handsala samning sem verður hugsanlega ekki studdur. Vandi þessa ferils í heild sinni er sá að ekki fékkst lýðræðislegt umboð.“

Lélegar aðstæður hér

Landsfundur Samfylkingarinnar febrúar 2013
Landsfundur Samfylkingarinnar febrúar 2013
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar geta lent á milli steins og sleggju í eftirmála þingkosninga, ekki síst ef þjóðin á að kjósa um framhald viðræðna. „Ef kosin verður stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks en þjóðin kýs að halda áfram með viðræður hvernig ætla þeir þá að halda þeim áfram?“ spurði hann og benti á að hér væri orðnar harla lélegar aðstæður fyrir rekstur alþjóðafyrirtækja. Vitnaði hann til þess að Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segi fyrirtækinu vart statt að vera hér lengur. „Þegar fólk er byrjað að flýja landið þvi það getur ekki buið hér lengur við gjaldeyrishöft og óstöðugleika þá er tvennt til boða - halda áfram að leyfa fólkinu að flytja eða flytja inn stöðugleika.“

Skilnaðarbarnaaðferðin

Sigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, mælti hins vegar með annarri aðferð í stað þeirra að ganga í Evrópusambandið. Aðferðina sagði hann reyndar ekki nýja af nálinni: „Sú aðferð sem hefur reynst Íslendingum best er skilnaðarbarnaaðferðin. þ.e. að reyna að hafa sem best samskipti við sem flesta, önnur lönd. Íslandi mun farnast best ef við nýtum samskipti við lönd sem munu farnast vel næstu áratugina, ekki aðeins Evrópu,“ sagði hann.