Bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs segir að nú sé rétti tíminn til þess að kaupa kínversk hlutabréf. Business Insider greinir frá þessu.

Kínversk hlutabréf hafa hríðfallið í verði það sem af er sumri og hefur það lækkað án afláts í þessari viku. Greiningaraðilar hjá Goldman Sachs telja hins vegar að hrunið sé meira en efni standa til og kínversk hlutabréf séu núna undir raunvirði.

Þeir halda því fram að gengi kínverskra hlutabréfa gæti hækkað um 36% fyrir lok ársins að því gefnu að kínversk stjórnvöld grípi inn í með örvunaraðgerðum, sem flestir telja líklegt.

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti í gær um 0,25 prósentur og bindisskyldu bankanna um 0,5 prósentur. Núna eru stýrivextir bankans 4,6% en búist er við þeir verði lækkaðir í 4% fyrir lok ársins.