Spánn getur ekki staðið við skuldbindingar sínar og er komið í greiðsluþrot. Þetta fullyrðir Jeremy Warner, aðstoðarritstjóri breska dagblaðsins Daily Telegraph . Hann segir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafa vakið athygli á slæmri stöðu Spánar en sem fyrr notað afar varfærnislegt orðalag. Hann bendir á að stjórnvöld á Spáni hafi ekki dregið úr halla á fjárlögum eins og stefnt var að. Gert er ráð fyrir því að hallinn nemi 6,6% af landsframleiðslu á þessu ári en verði 6,9% á því næsta. Ekki er útlit fyrir að þær lækki á næstu árum, að mati Warner sem fullyrðir að staða hagkerfis Spánar sé afar slæm.

Aðstoðarritstjórinn er afar svartsýnn á þróun mála á Spáni, segir m.a. að róðurinn eigi eftir að þyngjast verulega, ekki síst þegar stjórnvöld þurfa að endurfjármagna ódýr lán sem ríkissjóður hefur fengið hjá evrópska seðlabankanum enda megi gera ráð fyrir að kjör á nýjum lánum verði mun verri en þau sem bjóðast nú til dags. Af þeim sökum verði að stokka skuldir Spánverja upp með sambærilegum hætti og gert var á Grikklandi.

Af þessum sökum mælir Warner með því að fjárfestar taki innstæður sínar úr spænskum bönkum. Ef björgunaraðgerðir þar verði eitthvað í líkingu við björgun Kýpur þá verði fjárfestar þeir fyrstu sem verði fyrir skakkaföllum.