Skuldbindingar lífeyrissjóðanna eru vanmetnar enda er mat þeirra reiknað á grundvelli mun lægri lífaldurs en spár gera ráð fyrir. „Ef tekið yrði tillit til spár um framtíðaþróun lífaldurs, eins og nágrannaþjóðir okkar gera, má gera ráð fyrir að áfallnar skuldbindingar lífeyrissjóðanna aukist um nærri 200 milljarða króna,“ að sögn Björns Z. Ásgrímssonar, sérfræðings á greiningasviði Fjármálaeftirlitsins.

Björn skrifar um skuldbindingar lífeyrissjóðanna í nýjasta tölublaði Fjármála , vefriti Fjármálaeftirlitsins, FME.

Hækka þarf lífeyrisaldur um 4 ár

Í greininni segir Björn að við forsendubreytinguna myndi núverandi halli á áfallinni stöðu sem nemur um 550 milljörðum króna verða nálægt 750 milljörðum króna. Ljóst sé að hagsmunaaðilar verði að bregðast við þróuninni um aukinn lífaldur m.a. með því að skerða lífeyrisréttindi, hækka iðgjöld og lífeyrisaldur.

Björn skrifar:

Skerðing réttinda mun ekki verða vinsæl ákvörðun en hjá henni verður ekki komist á næstu árum ef ekkert verður að gert. Þessi aðgerð mun og auka álag á almannatryggingar. Það má telja eðlileg viðbrögð að hækka lífeyrisaldur um 2- 4 ár í þrepum og gera lífeyristöku sveigjanlegri. Hækkun iðgjalda gæti einnig verið skynsamleg aðgerð bæði vegna hækkandi lífaldurs og til að ná fram markmiðum um lífeyrisgreiðslur sem sjóðirnir stefna að sjóðfélögum til handa.