Eitt stærsta fjárfestingafyrirtæki Bandaríkjanna, Standish Mellon Asset Management Co. segir að nú sé rétti tíminn fyrir Ísland til þess að endurfjármagna neyðarlánin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), Norðurlöndunum og Póllandi, upp á alls 1,8 milljarða dala eða um 200 milljarða íslenskra króna. Jákvæð skilyrði á alþjóðlegum lánamörkuðum gefi Íslandi færi á að draga úr fjármagnskostnaði til langs tíma.

Stjórnvöld fengu samtals 4,6 milljarða dala í neyðarlán frá AGS, Norðurlöndunum og Póllandi í kjölfar hrunsins árið 2008. Það jafngilti um 11% af landsframleiðslu. Búið er að greiða þau að mestu til baka og standa eins og áður sagði eftir 1,8 milljarðar dala. Lán AGS eru á gjalddaga á næsta ári og árið 2016. Lánin frá Norðurlöndunum eru á gjalddaga á árunum 2019-2021.

Bloomberg-fréttaveitan fjallar um málið og bendir á að landið sé komið undan kreppunni, staðan sé í raun betri en víða í Evrópu, og séu erlendir fjárfestar farnir að horfa hingað á nýjan leik. Haft er eftir Nathaniel A Hyde, sérfræðingi hjá Standist Mellon Management, að miklar líkur séu á að stjórnvöld hér á landi geti staðið við erlendar skuldbindingar sínar, ólíkt Grikkjum.