Ólöf Nordal innanríkisráðherra mælti í dag fyrir tveimur lagafrumvörpum á Alþingi í því skyni að komið verði á millidómstigi hér á landi sem nefnt yrði Landsréttur. Málin ganga nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd þingsins. Samkvæmt frumvörpunum verður dómurum við Hæstarétt fækkað úr níu í sjö og fimm dómarar taka hverju sinni þátt í meðferð máls. Dómurum við héraðsdómstóla verður fjölgað úr 38 í 42.

Með frumvarpi til laga um dómstóla er annars vegar lagður grundvöllur að stofnun millidómstigs hér á landi þannig að dómstigin verði þrjú, þ.e. héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur, en hins vegar gerðar verulegar breytingar á stjórnsýslu dómstólanna með þeim hætti að sameiginleg stjórnsýsla allra þriggja dómstiga er færð undir nýja stofnun á vegum dómstólanna. Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála eru lagðar til viðamiklar breytingar á meðferð mála fyrir dómi sem leiða af stofnun millidómstigs.