Heimsframleiðsla á metanóli nemur 100 milljónum tonna á ári. Stærsti hluti metanóls hefur hingað til verið notaður í ýmiss konar efnaiðnað, eins og framleiðslu á málningu, þéttiefni, plasti, lími og þess háttar. Þá er notað til íblöndunar í bensín en einnig er hreint metanól (rafeldsneyti) notað sem orkugjafi fyrir bíla, aðallega í þungaflutningum.

Íslenska fyrirtækið Carbon Recycling Internatinal ( CRI ), sem fagnar 15 ára afmæli í ár, hefur þróað tækni til þess að framleiða metanól . Þekktust er verksmiðja fyrirtækisins í Svartsengi, þar sem ársframleiðslan nemur 4 þúsund tonnum. CRI er nú í samstarfi um byggingu nýrra verksmiðja í Noregi og Kína, þar sem hvor verksmiðjan fyrir sig mun framleiða 90-100 þúsund tonn á ári.

Ingólfur Guðmundsson
Ingólfur Guðmundsson
„Við erum fyrsta félagið í heiminum sem framleiðir rafeldsneyti og fær það vottað og fyrsta félagið sem gerir þetta á iðnaðarskala , segir Ingólfur Guðmundsson, forstjóri CRI .

„Alþjóðastofnunin um endurnýjanlega orkugjafa (IRENA) reiknar með því að heimsframleiðslan fari í 500 milljónir tonna árið 2050 vegna vaxandi eftirspurnar eftir grænu eldsneyti til orkuskipta. Miðað við þessa spá þyrfti markaðurinn 350 milljónir tonna af metanóli framleitt með tækni CRI .“

Sem dæmi um tækifærin framundan þá hefur skipafélagið Maersk gefið það út að það hyggist hætta að nota olíu á sín skip. Hefur félagið skoðað þrjá kosti: metanól , ammoníak og vetni.

„Félagið tilkynnti fyrir nokkrum vikum að það ætlaði að sjóseta fyrsta „græna“ skipið eftir tvö ár og það mun keyra á rafmetanóli. Ástæðan er sú að í dag eru ekki til vélar sem keyra á ammoníaki eða vetni, né dreifileiðir fyrir þessi eldsneyti. Metanólið hefur mikið forskot, bæði vegna þess að vélbúnaðurinn er til og einnig vegna þess að það eru metanól -birgðageymslur í nánast öllum höfnum heims.

Við sjáum fyrir okkur að mesta aukningin í notkun á metanóli á næstu árum verði í þungaflutningum, trukkum og skipum. Síðan er líka hægt að taka metanólið sem við framleiðum og búa til úr því þotueldsneyti en það er framtíðarmúsík.“

Greint hefur verið frá því að stefnt er að skráningu CRI á Euronext Growth markaðinn Ósló .

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .