Guðmundur Jökull Þorgrímsson og Paulo Cardoso , fengu hugmyndina að deskandbed fyrir rúmu ári síðan og nú er vefsíðan komin í loftið. Bakgrunnur þeirra er úr tölvugeiranum og hugbúnaðargerð en Paulo er einnig með MBA -gráðu. Báðir störfuðu þeir hjá Advania um tíma en einnig hafa þeir reynslu úr bankageiranum.

„Þegar við fórum að skoða þetta sáum við ákveðið gat á markaðnum —það hefur vantað betri þjónustu fyrir fjarvinnandi ferðamenn,“ segir Guðmundur. „Við erum ekki með neina erlenda fyrirmynd. Airbnb er auðvitað með sína þjónustu en við vitum ekki til þess að til sé vettvangur fyrir þennan markhóp, sem við viljum ná til og við köllum fjarvinnandi ferðamenn. Þessi hópur er að vaxa gríðarlega enda eru þetta mjög verðmætir ferðamenn að því leyti að þeir dvelja gjarnan lengur en hefðbundnir ferðamenn og segja má að í því felist ákveðin sjálfbærni.“

Guðmundur segir að á deskandbed - síðunni geti þeir sem vilja stunda fjarvinnu nálgast allt á einum stað.

„Við höfum tínt til það sem okkur hefur þótt vanta fyrir þennan markhóp,“ segir hann. „Á síðunni getur fólk fundið sér hentuga íbúð eða hús til leigu og séð nethraða eignarinnar, bókað bílaleigubíl, sem og ferðir til og frá flugvellinum. Þetta er svona hefðbundin þjónusta en til viðbótar geta okkar notendur fundið vinnuaðstöðu á síðunni, fundarherbergi eða fundarsali. Fjarvinnandi ferðamenn þurfa gjarnan sérstakar tryggingar og þær geta þeir keypt á okkar síðu en við erum í samstarfi við tryggingafélagið SafetyWing . Ef fólk vill síðan samtvinna vinnu og frí þá getur það bókað ýmsar ferðir og afþreyingu í gegnum deskandbedsíðuna en við erum í samstarfi við Tourdesk um þá þjónustu,“ segir Guðmundur en fjöldi ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda býður ferðir til sölu í gegnum Tourdesk .

Að sögn Guðmundar er deskandbed þegar komið með töluvert framboð á vinnusvæðum, eða því sem á ensku er kallað coworking , í flestum landshlutum. Má sem dæmi nefna að á síðunni er hægt að leigja vinnuaðstöðu í Skúrnum á Flateyri, Blábankanum á Þingeyri, Fjord People á Ísafirði og Hugvöllum á Laugavegi í Reykjavík ásamt fleiri vinnusvæðum. Hann segir að hugsunin sé að koma til móts við ólíkar þarfir einstaklinga. Sumir kjósi að vinna í frið og ró en aðrir leggi áherslu á að hitta annað fólk, þar sem hægt sé að skiptast á hugmyndum, deila þekkingu og víkka tengslanetið.

Í fjármögnunarfasa

„Það kostar ekkert að skrá eignina hjá okkur og ferlið er allt mjög einfalt,“ segir Guðmundur. „Við tökum einungis 13 prósenta söluþóknun ef eign er leigð í gegnum okkar síðu. Er þetta lægri þóknun en gengur og gerist. Markmiðið er að byrja á Íslandi en við hugsum líka stærra en það og teljum grundvöll til að fara með þessa hugmynd út fyrir landsteinana. Við sjáum vaxtarmöguleika víðsvegar um heim með okkar vörumerki og vegna þessara áforma erum við núna í þeim fasa að sækja okkur fjármagn.“ Guðmundur segir að Ísland hafi alla burði til að verða paradís fyrir fjarvinnu ferðamenn. „Við Paulo teljum að Ísland eigi mikið inni fyrir þennan markhóp,“ segir Guðmundur. „Það eru sérstaklega mikil tækifæri úti á landi, þar sem flestir staðir eru með háhraða internet og gott framboð á afþreyingu, sem er mikilvægur partur af púslinu. Ekki má heldur gleyma hinum félagslega og efnahagslega ávinningi sem verður til með þessu.“

Paradís fyrir fjarvinnandi

Guðmundur er þeirrar skoðunar að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, sem og einkaframtakið eigi að leggjast á eitt til að gera Ísland að paradís fyrir fjarvinnandi ferðamenn. Hann segir að með útgáfu langtímavegabréfsáritunar vegna fjarvinnu hafi íslenska ríkið raunar stigið mikilvægt skref í því að auðvelda þessum ferðamönnum að stunda vinnu á íslandi.

„Við Paulo höfum verið þeirrar skoðunar í mörg ár að fjarvinna sé framtíðin vegna þess að við höfum báðir reynslu af því að það form virkar vel,“ segir Guðmundur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .