*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 14. nóvember 2021 19:03

Mætingar þjóðhagslega hagkvæmar

Svokallaðir mætingarmenn spara lögmönnum og dómurum tíma og umbjóðendum fjármuni að sögn eins slíks.

Jóhann Óli Eiðsson
Ásgeir Jónsson sinnir mætingum á reglulegum dómþingum við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Eyþór Árnason

Tilvist mætingarmannsins er hagkvæm fyrir lögmenn, viðskiptavini þeirra og dómstólana sjálfa að sögn Ásgeirs Jónssonar, sem starfar sem slíkur. Ásgeir á að baki áratugi í lögmennsku en ákvað nýverið að taka mætingar að sér.

Flest höfum við heyrt um lögmenn og höfum vissa hugmynd um hvað þeir gera. Færri hafa hins vegar heyrt um mætingarmenn en þar er nánast á ferð sérstök undirtegund lögmanna. Hlutverk þeirra er að mæta í regluleg dómþing – þar eru einkamál þingfest og fram haldið áður en þeim er úthlutað til dómara – og tryggja að þau falli ekki niður sökum útivistar.

„Í Reykjavík eru reglulegu dómþingin tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum, og við erum aðallega tveir sem mætum og pössum upp á að mætt sé bæði til sóknar og varnar,“ segir Ásgeir Jónsson, lög- og mætingarmaður. „Það var nú hálfgerð tilviljun að ég tók þetta að mér. Hér í næsta herbergi við mig starfaði Tryggvi Viggósson en hann hafði sinnt mætingum í hartnær þrjátíu ár. Hann lét gott heita eftir síðasta réttarhlé og ég ákvað að prófa að taka við af honum.“

Ár hvert eru þingfest um sex þúsund einkamál við héraðsdómstóla landsins en lítill hluti þeirra ratar í aðalmeðferð. Sá háttur hefur verið hafður á að mætingarmenn taki fyrstu skrefin að sér, frá þingfestingu til greinargerðarskila en eftir skilin er málum úthlutað til dómara. Gildir það jafnt hér í borginni og úti á landi. Þurfi lögmaður á höfuðborgarsvæðinu að reka mál úti á landi fær hann jafnan lögmann á staðnum til að mæta í sinn stað í reglulegu þingin og minni fyrirtökur. Það snýst síðan við þegar lögmaður, með starfsstöð úti á landi, þarf að flytja mál í bænum.

„Þetta fyrirkomulag hefur verið lengi við lýði og helgast af því að það eru ekki nema 24 tímar í sólarhring. Lögmenn sem sinna málflutningi þurfa yfirleitt að halda vel á spöðunum til að ná að sinna sínum kúnnum og þeir telja tíma sínum betur borgið við að vinna í sínum málum í stað þess að bíða niðri í dómshúsi,“ segir Ásgeir.

Afleiðingin er sú að reglulegu þingin ganga hraðar fyrir sig en ef sífellt þyrfti að vera að skipta um lögmenn og þá nýtist tími lögmanna betur. Þá má færa rök fyrir því að málskostnaðarreikningur umbjóðandans verði lægri en ella enda minni tími sem tapast í ferðalög og bið niðri í dómi.

Ásgeir sinnum tveir

„Við mætum hérna tveir yfirleitt nokkru áður en dómshúsið opnar. Dagana fyrir reglulegu þinghöldin höfum við verið í samskiptum við okkar kúnna, bæði út af málum sem eru að koma ný inn á þingið sem og vegna mála sem eru í greinargerðarfresti. Síðarnefndu málin eru tekin fyrir fyrst en að þeim loknum hefjast þingfestingarnar,“ segir Ásgeir. Dómþinginu lýkur síðan kringum hádegi. Þá hefst vinna við að láta viðskiptavini, sem oftast eru lögmenn en stöku sinnum fyrirtæki eða einstaklingar sem hafa leitað beint til mætingarmanns, vita hvað gerðist á þinginu og færa til bókar hvenær þarf að mæta næst.

Eins og gefur að skilja er ekki mikið svigrúm fyrir mætingarmenn að taka að sér önnur málflutningsstörf. „Málflutningsmaður er boðaður í fyrirtöku máls hjá dómara nánast hvenær sem er og þá hentar illa að vera bundinn alla þriðju- og fimmtudaga. Ég sinni þó dulítilli ráðgjöf og skjalagerð samhliða þessu. Mætingastarfið býður illa upp á það að taka pest en þá þarf maður að fá lögmann til að mæta fyrir mætingarmanninn!“ segir Ásgeir.

Sem fyrr segir eru tveir lögmenn sem sinna mætingum við Héraðsdóm Reykjavíkur en svo skemmtilega vill til að þeir heita báðir Ásgeir, annar Jónsson og hinn Björnsson. „Það er ekkert vandamál. Ef mér berast skjöl sem eiga að berast nafna, þá er það bara rétt yfir borðið til hins,“ segir Ásgeir að lokum. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.