*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 19. apríl 2018 09:17

Mætir ekki uppsöfnuðum skorti

SI spáir að um 4.100 nýjar íbúðir komi á markaðinn í ár og á næsta ári en það er aðeins um þriðjungur af þörf og uppsöfnuðum skorti.

Snorri Páll Gunnarsson
SI áætlar að til að mæta þörf fyrir íbúðir á höfuðborgarsvæðinu þurfi að byggja 45 þúsund íbúðir fyrir 2040.
Haraldur Guðjónsson

Viðvarandi skortur hefur verið á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og endurspeglast sá skortur í mikilli verðhækkun íbúða undanfarin ár. Framboð af fullbúnum íbúðum er þó að aukast og vöxtur eftirspurnar að minnka. Gangi spár eftir mætir áætluð uppbygging þó aðeins þörf fyrir íbúðarhúsnæði en ekki uppsöfnuðum skorti.

Samtök iðnaðarins (SI) spá því að milli 2018 og 2020 muni 6.713 nýjar íbúðir verða fullgerðar á höfuðborgarsvæðinu og að rúmlega 2.200 íbúðir komi á markaðinn á hverju ári.

Í skýrslu hagdeildar Íbúðalánasjóðs (ÍLS) frá því í febrúar um þörf fyrir íbúðir hér á landi er áætlað að fjölga þurfi íbúðum á öllu landinu um 17 þúsund frá 2017 til 2019 til að mæta uppsöfnuðum skorti frá árinu 2012 og þörf fyrir íbúðarhúsnæði miðað við miðspá Hagstofunnar fyrir fólksfjölgun á Íslandi. Á síðasta ári voru byggðar 1.768 nýjar íbúðir á landinu og nemur þörfin því 15.232.

Mestur er íbúðaskorturinn á höfuðborgarsvæðinu. SI spáir að um það bil 4.100 íbúðir verði byggðar á höfuðborgarsvæðinu í ár og á næsta ári, en það nemur eingöngu rúmlega fjórðungi af þörfinni á öllu landinu.

Á höfuðborgarsvæðinu voru byggðar 1.337 nýjar íbúðir á síðasta ári, eða þrjár af hverjum fjórum íbúðum sem byggðar voru á öllu landinu. Sé gert ráð fyrir því að um 75% af uppsöfnuðum skorti sé á höfuðborgarsvæðinu má gróflega áætla að uppbyggingin á höfuðborgarsvæðinu í ár og á næsta ári verði aðeins rúmlega þriðjungur af því sem þarf.

SI áætlar að til að mæta þörf fyrir íbúðir á höfuðborgarsvæðinu þurfi að byggja 45 þúsund íbúðir fyrir 2040. Jafngildir það um 2.000 íbúðum á ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.