Hagdeild Íbúðalánasjóðs bendir á að norsk stjórnvöld gerðu nýverið tímabundna breytingu á reglugerð um fasteignalán sem ætlað er að bregðast við auknum einkennum fasteignabólu þar í landi, sér í lagi í Osló.

Einnig er tekið fram að full ástæða sé á því að grípa til aðgerða hér á landi sambærilegum þeim sem Norðmenn hafa gripið til er varðar hækkun eiginfjárkröfu við kaup á íbúð númer tvö eða þrjú o.s.frv.

„Slíkar aðgerðir myndu minnka eftirspurnarþrýsting á fasteignamarkaði og skapa aukið rými fyrir fyrstu kaupendur til þess að komast inn á markaðinn þar sem fjársterkir aðilar sem þegar eiga fasteign þyrftu að binda meira eigið fé til að eignast fleiri eignir. Aðgerðir Norðmanna eru tímabundnar. Reglugerðin tók gildi 1. janúar 2017 og rennur út 30. júní 2018,“ segir í grein Guðmundar Sigfinnssonar, hagfræðings hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs, í grein sem hann skrifar á vef sjóðsins.