Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, var síðastur manna á mælendaskrá í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag. Hann var raunar svo neðarlega á mælendaskránni að hann átti ekki von á því að þurfa að taka til máls.

Því varð nokkur bið á því þegar Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tilkynnti að Þorsteinn ætti næstur að taka til máls, þar til Þorsteinn kom inn í þingsalinn — og það á harðahlaupum.

Þegar upp í pontu var komið, var Þorsteinn orðinn lafmóður og baðst innilegrar afsökunar á því á meðan hann reyndi að ná andanum, og sagði um leið að heilbrigðiskerfið væri að molna niður af manna völdum.

„Nú sem aldrei fyrr er pólitísk réttrúnaður orðin þannig að hún er farin að ógna lífi,“ sagði Þorsteinn.

Hann gagnrýndi lengingu biðlista í heilbrigðiskerfinu. „Nú á síðustu vikum hefur steininn tekið úr,“ sagði Þorsteinn. Hann gagnrýndi tilflutning á skimunum frá Krabbameinsfélaginu yfir til ríkisins um áramótin án þess að ríkið hefði fundið viðunandi lausn hafi annars staðar.

„Það er þó nokkuð af konum sem bíða núna með lífið að veði. Þær bíða eftir því að leghálsstrokur verði teknar upp úr pappakössum og sendar til Danmerkur í rannsóknir. Þær bíða eftir því að niðurstöður úr brjóstamyndatökum verði gaumgæfðar. Herra forseti þetta er algjörlega ólíðandi og þessu verður að linna," sagði Þorsteinn.