Hátt í 200 leigjendur hafa sótt ráðgjöf hjá Leigjendalínu Orators og Ölmu, áður Almenna leigufélagið, undanfarin þrjú starfsár, en samningur um áframhaldandi starfsemi var undirritaður í dag. Meðal álitaefna sem komið hafa til kasta Leigjendalínunnar eru óvæntir meðleigjendur, baðherbergislaus íbúð og ágreiningur um tryggingafé.

Magnús Geir Björnsson, formaður Orators, og María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Ölmu, undirrituðu endurnýjaðan samstarfssamning, en í Leigjendalínunni veita laganemar við HÍ leigjendum ráðgjöf í síma undir handleiðslu lögmanns á miðvikudagskvöldum. Magnús segir starfið hafa reynst ómetanlegt fyrir fjölda fólks undanfarin ár.

„Það getur verið bæði flókið og kostnaðarsamt að leita sér lögfræðiaðstoðar og margir sem hafa í gegnum tíðina veigrað sér við að leita úrlausnar sinna mála vegna þess,“ segir Magnús.

Mætti óvæntum sambýlingum í íbúðinni

Þó Leigjendalínan sinni ekki málarekstri eða bréfaskrifum fyrir innhringjendur er hún ákveðið fyrsta stopp að sögn Magnúsar, en bæði eru veitt svör við einföldum álitaefnum og skjólstæðingum eftir atvikum leiðbeint um rökrétt næstu skref. Hann segir álitaefnin sem upp hafa komið vera vægast sagt fjölbreytt.

„Við fáum oft skrautlegar sögur, en m.a. hringdi hérna inn leigjandi sem mætti nýjum og óvæntum meðleigjenda í íbúðinni sinni. Þá hafði leigusalinn einfaldlega leigt út eitt herbergið að honum forspurðum,“ segir Magnús.

Oftast séu fyrirspurnirnar þó hefðbundnari, en hann bendir á að möguleg álitaefni séu nær óþrjótandi þegar um heimili fólks er að ræða.

Alma borgar allan kostnað

Leigufélagið Alma er bakhjarl starfsins og greiðir allan kostnað sem af því hlýst. Aðkoma félagsins að einstökum málum er þó engin og félagið fær engar upplýsingar um innhringjendur.

María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Ölmu, segir markmið starfseminnar að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu trausts og faglegs leigumarkaðar.

„Það hefur verið ánægjulegt að sjá íslenskan leigumarkað þroskast undanfarin ár og færast sífellt nær því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum,“ segir María.

Hún bendir á að hlutur faglegra og sérhæfðra leigufélaga verði sífellt stærri, líkt og í nágrannalöndum Íslands, sem geri leigu að öruggum og raunhæfum búsetukosti. Mikilvægt sé að slík félög sýni samfélagsábyrgð í verki.

„Við kynntum sjö ára leigusamninga með föstu leiguverði utan vísitölubreytinga fyrst íslenskra leigufélaga í fyrra,“ segir María og bendir á að félagið leggi jafnframt rækt við að styðja einstök samfélagsverkefni.

„Félagið er einn helsti styrktaraðili Píeta samakanna gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og útvegar samtökunum Píeta húsið á Baldursgötu. Svo erum við auðvitað að fara inn í fjórða árið okkar með Leigjendalínuna, sem er gríðarlega ánægjulegt.“