Einungis þremur mánuðum eftir afnám fjármagnshafta hefur fjárfesting erlendra aðila á íslenskum hlutabréfamarkaði aukist umtalsvert. Frá ársbyrjun 2016 hefur eignarhald erlendra fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði tæplega 57-faldast ef undarskildir eru fjárfestingarsjóðurinn Yucaipa og fjárfestingarbankinn J.P. Morgan, sem báðir hafa verið hluthafar Eimskips frá hruni eftir að hafa áður verið kröfuhafar fyrirtækisins.

Undanfarin ár hafa sjóðir á vegum sjóðstýringafélagsins og aflandskrónueigandans Eaton Vance aukið eignarhlut sinn í skráðum íslenskum félögum umtalsvert, en síðustu mánuði hafa nýir aðilar bæst í hópinn. Um er að ræða sjóði á vegum sjóðstýringafélaganna Miton Group, Wellington Partners og MSD Partners, en sá síðastnefndi kom inn í hluthafahóp Marel í febrúar síðastliðnum. Hinir sjóðirnir hafa fjárfest í fleiri en einu skráðu félagi.

Talsverð breyting frá afnámi hafta

Gjaldeyrishöft voru afnumin um miðjan mars síðastliðinn á alla nema aflandskrónueigendur. Í byrjun mars áttu erlendir aðilar innlend hlutabréf að verðmæti 35 milljarðar króna en um síðustu mánaðamót áttu þeir rúma 46 milljarða. Ef eignarhlutur Yucaipa og J.P. Morgan í Eimskip er tekinn út fyrir sviga, þar sem um kjölfestu- og langtímafjárfesta er að ræða, hefur virði hlutafjár í erlendri eigu farið úr 16,7 milljörðum í 27,7 milljarða frá því í byrjun mars. Það jafngildir 66% aukningu frá því að höft voru afnumin. Ef farið er einn mánuð lengra aftur í tímann, áður en MSD Partners keypti hlutafé í Marel fyrir 7,7 milljarða, nemur aukningin heilum 316% á fjórum mánuðum.

Þarna er einnig tekið tillit til breytingar í virði hlutabréfanna, en ef litið er á hlutdeild erlendra aðila á markaði hefur hún aukist úr 1,92% í 3,03% frá því að höft voru afnumin. Í byrjun febrúar var hlutfallið einungis 0,77%. Ef Yucaipa og J.P. Morgan eru tekin með eiga erlendir aðilar rúm 5% af hlutafé á íslenskum hlutabréfamarkaði. Þess ber að geta að þessar tölur eru í raun vanmat, hér er einungis miðað við 20 stærstu hluthafana í hverju fyrirtæki nema í þremur tilfellum þar sem erlendir sjóðir hafa lögum samkvæmt greint frá því að eignarhlutur þeirra sé kominn yfir 5%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.