Landsliðsmiðvörðurinn fyrrverandi Kári Árnason lauk nýverið knattspyrnuferlinum með glæsibrag, er hann varð Íslands- og bikarmeistari með Víkingi Reykjavík, uppeldisfélaginu. Í nýútkomnu tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar er að finna ítarlegt viðtal við hann um þennan frábæra endi á ferlinum, atvinnumannaferilinn, landsliðið, nýja starfið innan raða uppeldisfélagsins og ýmislegt fleira.

Þá kemur Kári inn á innkomu sænska reynsluboltans Lars Lagerback í landsliðsþjálfarastarfið, hvernig hann breytti allri umgjörð landsliðsins til hins betra og lagði þar með grunninn að velgengni landsliðsins næstu árin á eftir. Á sama tíma kom Heimir Hallgrímsson inn í þjálfarateymið. Í sameiningu stýrðu Lars og Heimir liðinu á EM í fyrsta skipti í sögu íslenska karlalandsliðsins árið 2016. Að móti loknu lét Lars af störfum og tók Heimir einn við aðalþjálfarastarfinu. Ekki náðist síður frækinn árangur í kjölfarið er sæti á HM 2018 var tryggt.

Að HM loknu ákvað Heimir að láta af störfum og var arftaki hans Svíinn Erik Hamrén, sem Kári ber góða sögu. Í fjölmiðlum og víðar var Hamrén þó oft gagnrýndur fyrir að spila of mikið á „gamla bandinu", sem sagt liðinu sem náði ofangreindum árangri, á kostnað yngri leikmanna og kallað var eftir kynslóðaskiptum. Kári furðar sig á þeirri umræðu.

„Það er gerð krafa um árangur í landsliðinu og að leikir vinnist. Þegar svo er vilja þjálfarar, eðlilega, spila sínu sterkasta liði, í stað þess að gefa ungum leikmönnum sénsinn sem verða kannski orðnir góðir eftir fimm ár. Þessir strákar verða að fá smjörþefinn með því að vera hluti af hópnum og svo með tímanum fatta þeir, eða ekki, út á hvað þetta gengur. Ef þeir ná ekki að koma sér inn í gildi landsliðsins, þá spila þeir ekki. En ef þeir ná því, sýna og sanna að þeir séu til í að leggja mikið á sig og eru betri en þeir sem fyrir eru í byrjunarliðinu, þá að sjálfsögðu spila þeir. A-landsliðið á ekki að vera uppeldisstöð, það er hlutverk yngri landsliðanna."

Kári kveðst hafa verið búinn að ákveða að hætta að spila með landsliðinu eftir grátlegt tap í Ungverjalandi þar sem sæti á EM sem fór fram síðasta sumar var í húfi. En eftir að hafa séð riðilinn fyrir undankeppni HM 2022 hætti Kári við að leggja landsliðsskóna á hilluna. „Ástæðan fyrir því að ég hélt áfram var sú að þetta var að mínu mati það léttur riðill að ég hafði mikla trú á að ef við héldum sama liði, myndum við pottþétt ná öðru sætinu á eftir Þjóðverjum."

Uppskera landsliðsins í riðlinum var þó heldur dræm og endaði liðið í næst neðsta sæti riðilsins. Fjarvera margra lykilmanna hafði sitt að segja og undir lok undankeppninnar var liðið að mestu skipað ungum leikmönnum. Auk þess er landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson, sem tók við af Hamrén eftir tapið í Ungverjalandi, tiltölulega óreyndur þjálfari. Má því segja að þeir sem hafi kallað eftir kynslóðaskiptum hafi fengið ósk sína uppfyllta, þó svo að endurnýjunin hafi orðið mun hraðari og meiri en kallað hafði verið eftir. Kári segir gott og blessað að ungir leikmenn séu að taka við kyndlinum, en hann myndi vilja sjá liðið halda betur í grunngildin sem fleyttu landsliðinu svo langt fyrir nokkrum árum síðan.

„Það eru ákveðnir hlutir sem mega ekki fara úrskeiðis. Það er gott og blessað að spila boltanum út úr vörninni en til að ná árangri í landsliðsfótbolta þarf að lágmarka fjölda mistaka, því þau kosta ódýr mörk. Þetta sást bersýnilega í leiknum á móti Norður-Makedóníu [sem tapaðist 3-1 og var síðasti leikur í undankeppni HM] sem er alls ekki besta landslið í heiminum. Menn voru ítrekað að gera mistök og í þrígang kostaði það mark," segir Kári og bætir við:

„Ég hefði viljað sjá landsliðið halda áfram að skóla þessa ungu leikmenn í grunngildunum sem einkenndu landsliðið í gegnum velgengnina, en það hefur því miður ekki verið gert. Þegar landsliðinu gekk sem best var einfaldlega bannað að gera mistök því markmiðið var að gefa andstæðingum okkar aldrei færi á að riðla skipulagi okkar. Ungu leikmennirnir verða að átta sig á því að það er ekki í boði að gera ódýr mistök trekk í trekk. Það eru ákveðin grunnatriði sem þurfa að vera í lagi, annars næst enginn árangur. Menn verða hreinlega að axla ábyrgð á því sem þeir eru að gera."

Telur þú að ný kynslóð landsliðsmanna geti náð svipuðum árangri og „gamla bandið"?

„Þeir hafa klárlega hæfileikana til þess. En hvort þeir hafi hugarfarið í það á eftir að koma í ljós."

Nánar er rætt við Kára í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .