Vogunarsjóðirnir Taconic Capital Advisors, Attestor Capital og Och-Ziff Capital Management keyptu samtals 26,6% hlut í Arion banka af Kaupþingi á dögunum. Attestor og Taconic eignuðust báðir 9,99% hlut í bankanum og Och-Ziff keypti 6,6% hlut. Að auki keypti bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs 2,6% hlut í Arion banka, en fjárfestarnir fengu jafnframt kauprétt á 21,9% af hlutafé Arion banka til viðbótar.

Vogunarsjóðirnir þrír hafa allir verið hluthafar í Kaupþingi frá því að slitum fallna bankans lauk með nauðasamningum í árslok 2015. Áður en slitum lauk voru þeir kröfuhafar á bankann og því hafa þeir verið óbeinir hluthafar í Arion banka um árabil. Þeir voru hins vegar ekki í hópi þeirra sjóða sem keyptu kröfur á Kaupþing á miklu hrakvirði strax í kjölfar bankahrunsins. Þar af leiðandi voru þeir ekki meðal þeirra sem eignuðust bankann í kjölfar samninga við stjórnvöld árið 2009.

Komu fyrst til Íslands árið 2012

Strax í kjölfar efnahagshrunsins fóru erlendir vogunarsjóðir að sanka að sér kröfum á föllnu íslensku bankana. Fyrstu viðskiptin með kröfurnar fóru fram á gríðarlegu hrakvirði á skuldatryggingauppboði í nóvember 2008. Kröfur á Kaupþing seldust þá á 6,625% af nafnvirði. Ári síðar birtu slitabú bankanna sínar fyrstu kröfuskrár, en vogunarsjóðirnir sem nú eru hluthafar í Arion banka voru ekki komnir inn í kröfuhafahópinn á þeim tíma. Þvert á móti komu þeir allir inn í kröfuhafahópinn síðar meir þegar kröfurnar höfðu þegar hækkað mikið í verði. Attestor keypti t.a.m. meirihluta sinna krafna rétt fyrir undirritun nauðasamninga í árslok 2015.

Því má segja að nálgun þessara sjóða hafi verið ólík nálgun sjóðanna sem keyptu kröfur strax eftir hrun og reyndu síðan að losa sig við þær sem fyrst. Líklegra er að þessir sjóðir hafi horft til lengri tíma og séð fram á áframhaldandi uppgang íslensks efnahagslífs, sérstaklega Attestor sem veðjaði eingöngu á virðishækkun í kjölfar nauðasamninga.

Taconic Capital var fyrstur sjóðanna til að kaupa verulegar kröfur á Kaupþing, en hann var fyrst skráður fyrir kröfum upp á 19,5 milljarða króna að nafnvirði í maí 2012. Á sama tíma var Och-Ziff meðal nýrra kröfuhafa með kröfur upp á 1,3 milljarða króna að nafnvirði. Báðir sjóðir bættu við sig talsverðum kröfum á komandi mánuðum og árum. Þegar kosið var um nauðasamninga í nóvember 2015 átti OchZiff kröfur upp á 234 milljarða króna og Taconic kröfur upp á 131 milljarð. Einungis tveir vogunarsjóðir, Abrams Capital og York Capital, áttu á þessum tíma hærri kröfu á Kaupþing en OchZiff. Á sama tíma átti Attestor Capital kröfur upp á 66,6 milljarða króna, en meirihluta þeirra hafði sjóðurinn keypt örfáum vikum fyrr.

Veðja á áframhaldandi uppgang

Sjóðirnir sem högnuðust mest á viðskiptum með kröfur á bankana voru löngu farnir úr landi þegar skrifað var undir nauðasamninga. Kröfurnar voru seldar á miklu hrakvirði fyrstu mánuðina eftir hrun en ruku síðan hratt upp í verði áður en þær staðnæmdust. Þeir sjóðir sem keyptu kröfur síðar en 2010 græddu því í raun lítið sem ekkert á kaupunum ef miðað er við væntar endurheimtur krafna við nauðasamninga. Þeir sjóðir þurftu því að freista þess að endurheimturnar yrðu betri en gert var ráð fyrir við samningana.

Við nauðasamning lauk slitum Kaupþings og kröfuhafar urðu að hluthöfum í nýju eignarhaldsfélagi, auk þess sem þeir fengu útgefið skuldabréf í hlutfalli við kröfur sínar. Helsta eign nýja eignarhaldsfélagsins var 87% hlutur í Arion banka og var því ljóst að væntar endurheimtur myndu haldast í hendur við virði bankans. Þeir sjóðir sem bætt hafa við sig hlutafé í Kaupþingi eru með öðrum orðum að veðja á að virði Arion banka muni aukast í takt við uppgang íslensks efnahagslífs.

Hluthafastaðan hefur tekið umtalsverðum breytingum frá nauðasamningi og talsverð samþjöppun hefur átt sér stað. Samkvæmt nýjasta hluthafalista Kaupþings frá 10. mars síðastliðnum, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, er Taconic Capital langstærsti hluthafi félagsins með 39,7% eignarhlut. Och-Ziff er næststærsti hluthafi Kaupþings með 14% hlut og Attestor kemur næstur með 10% hlut. Við samþykkt nauðasamnings átti Taconic einungis 8,5% krafna, Och-Ziff átti 4,8% og Attestor 2,4%. Sjóðirnir hafa því allir bætt talsvert við sig, en að sama skapi eru tveir stærstu vogunarsjóðirnir frá nauðasamningum, Abrams Capital og York Capital, nær horfnir á braut.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .