Föstudaginn 1. nóvember síðastliðinn var ný stjórn Félags löggiltra endurskoðenda kjörin og tók þá við nýr formaður félagsins, Sturla Jónsson. Sturla er meðeigandi hjá endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton endurskoðun, en hann hefur gegnt embætti varaformanns FLE frá árinu 2011. Athygli vekur að þetta er í fyrsta sinn í áratug sem formaður FLE kemur ekki úr röðum stóru endurskoðunarfyrirtækjanna þriggja, Deloitte, PwC eða KPMG, og þá er Sturla með yngstu mönnum til að taka að sér formannsembættið í 80 ára sögu félagsins.

Sturla segir formannsstarfið leggjast vel í sig, enda geti það verið fjölbreytt og krefjandi. „Við endurskoðendur höfum upplifað síauknar kröfur til endurskoðunar á undaförnum áratugum og við þurfum í sífellu að leita leiða til að standast þær en um leið haga vinnu okkar á sem skilvirkastan hátt. Þetta getur verið sérstaklega krefjandi við endurskoðun lítilla og meðalstórra félaga, en það má í raun halda því fram að flestöll íslensk fyrirtæki falli í þann flokk í samanburði við önnur lönd. Ég myndi gjarnan vilja hafa áhrif á þetta umhverfi þannig að það yrði endurskoðunarstéttinni og viðskiptalífinu til hagsbóta. Þau tvö ár sem ég hef starfað á vettvangi félagsins til þessa höfum við ekki séð stórfelldar breytingar á starfsemi FLE, en hins vegar var starfsemi félagsins breytt mikið með lagabreytingu á árinu 2008. Það má að segja að við séum enn að innleiða hjá okkur þau nýju hlutverk sem félagið gekkst við með þeirri lagabreytingu og erum alltaf að reyna að gera hlutina betur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .