Krumla skipulagðrar glæpastarfsemi hefur kreppst enn frekar um efnhagslífið á Ítalíu og í kjölfar skuldakreppunnar í Evrópu er mafían á Ítalíu orðinn "stærsti banki" landsins að því er fram kemur í frétt Reuters.

Versnandi skilyrði á fjármálamörkuðum hafa gert það að verkum að erfiðara er fyrirtæki að fá lán í ítölskum bönkum sem aftur hefur leitt til þess að fleiri eigendur fyrirtækja hafa leitað til ítölsku mafíunnar til þess að fá lánað fé, segir í skýrslu SOS Impresa sem vinnur gegn skipulagðri glæpastarfsemi á Ítalíu. Slík starfsemi er talin velta um 140 milljörðum evra á ári og talið er að fyrirtæki sem verði fyrir fjárkúgun mafíunnnar á Ítalíu séu 200 þúsund.

En mafían hefur einnig verið að nútímavæðast og hin gamla staðlaða mynd af starfsemi hennar á ekki lengur jafnvel við og áður. Þannig er bent á að mafían stundi nú skipulögð lánaviðskipti á fagmannlegum grunni.