*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Erlent 8. júlí 2020 08:01

Mafíubréf seld alþjóðlegum fjárfestum

Skuldagerningar, tryggðir af eignum ítalskrar mafíu, voru seldir til ýmissa fagfjárfesta í leit að hárri ávöxtun á lágvaxtatímum.

Ritstjórn
Úr kvikmyndinni Godfather, myndin tengist fréttinni ekki beint.
epa

Alþjóðlegir fjárfestar keyptu skuldabréf sem byggðu að hluta til á ágóða af glæpastarfsemi valdamestu mafíu Ítalíu, samkvæmt frétt Financial Times

Í einu tilviki voru skuldabréfin, sem gefin voru út af skálkaskjólum (e. front companies) Ndrangheta mafíunnar frá Calabriu héraðinu, keypt af einum stærsta einkabanka Evrópu, Banca Generali, í viðskiptum þar sem endurskoðunarfyrirtækið EY starfaði sem ráðgjafi. 

Talið er að skuldabréf að andvirði eins milljarðs evra hafi verið seld til alþjóðlegra fjárfesta á árunum 2015 til 2019, samkvæmt markaðsaðilum. 

Mafía með 44 milljarða evra veltu

Ndrangheta mafían er minna þekkt utan Ítalíu en sú sikileyska og hefur á síðustu tveimur áratugum vaxið í að verða ein af ríkustu og valdamestu glæpasamtökum í hinum vestræna heimi. Mafían, sem á rætur að rekja til Calabria héraðsins, stundar glæpi á borð við kókaínsölu á iðnaðarskala, fjárkúgun og vopnasmygl. 

Europol, löggæslustofnun ESB, áætlar að starfsemi Ndranghetta mafíunnar, sem er samansett af hundruðum sjálfstjórnargengja fremur en einum miðstýrðum samtökum, sé með um 44 milljarða evra árlega veltu. 

Samkvæmt fólki sem tók þátt í söluferlinu voru fjárfestar sem keyptu skuldabréfin meðal annars lífeyrissjóðir, vogunarsjóðir og fjölskylduskrifstofur, allir í leit að óhefðbundnum fjárfestingum til að ná hárri ávöxtun á lágvaxtatímum.

Tekjustreymi byggt á reikningum til heilbrigðisyfirvalda

Skuldabréfin voru búin til í gegnum ógreidda reikninga til ítalskra heilbrigðisyfirvalda frá fyrirtækjum sem útvega þeim heilbrigðisþjónustu. 

Samkvæmt lögum ESB, eiga reikningar í vanskilum af hálfu ríkisrekinna eininga að hafa í för með sér dráttarvexti. Það gerir þá aðlaðandi fyrir sértæk eignarhaldsfélög, sem setja þá inn í stórt safn af eignum og gefa út skuldabréf sem tryggð eru með væntu tekjustreymi byggðu á uppgjörum reikninganna. 

Flest eignasöfnin voru tryggð með lögmætum eignum en sum þeirra innihéldu reikninga frá fyrirtækjum, sem síðar kom í ljós að þau voru undir stjórn ákveðinna Ndrangheta gengja, sem höfðu náð að komast fram hjá peningaþvættiseftirlitsaðilum. 

Eignir frá flóttamannabúðum 

Einn stofnanafjárfestir keypti skuldabréf tryggt með eignasafni sem innihélt eignir frá flóttamannabúðum í Calabriu sem höfðu verið yfirteknar af skipulagðri glæpastarfsemi. Glæpasamtökin voru síðar fundin sek um að stela tugum milljónum evra af sjóðum Evrópusambandsins. 

Nær allir samningarnir höfðu ekki verið metnir af lánshæfisfyrirtækjum né fóru viðskipti með þá fram á skipulögðum fjármálamörkuðum. CFA, fjárfestingabanki í Genf, bjó til gerningana og seldi skuldabréfin til fjárfesta líkt og Banca Genarali. CFA bankinn segir að hann hafi aldrei vísvitandi keypt eignir tengdum glæpastarfsemi. 

Talsmenn bankans bættu því við að framkvæmd hafi verið áreiðanleikakönnun á öllum heilbrigðisþjónustueignunum sem það höndlaði með. Bankinn sagðist einnig hafa reitt sig á kannanir annarra leyfisskyldra fagaðila sem áttu viðskipti með reikningana eftir stofnun þeirra í Calabriu.  

Stikkorð: EY Banca Generali Ndranghetta CFA