Söluaukning Magasin du Nord í Danmörku á yfirstandandi reikningsári, sem lýkur nú um mánaðamótin, var yfir þeim 5% sem stefnt var að og verður þetta þriðja árið í röð sem sala verslanakeðjunnar eykst. Þá verður loks hagnaður af rekstrinum fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) þótt niðurstaða ársreiknings muni væntanlega koma út í mínus.

Tapið verður þó umtalsvert minna en þær tæpu 400 milljónir íslenskra króna sem stjórnendur höfðu reiknað með í upphafi síðasta árs. Í fyrra varð tap á Magsin fyrir afskriftir og fjármagnsliði sem nam um 42 milljónum danskra króna eða um 550 milljónum íslenskra króna.

Þetta kemur fram í frétt og viðtali Børsen við Jón Björnsson, forstjóra Magasin du Nord, undir fyrirsögninni: „Magasin sér ljós við endann á göngunum“.

Í samtali við Viðskiptablaðið staðfesti Jón að EBITDA-hagnaður yrði af rekstrinum á rekstrarárinu sem er að ljúka.

„Ég hef skoðað þetta ein sjö, átta ár aftur í tímann og þetta er í fyrsta sinn sem það er EBITDA-hagnaður af rekstri Magasin. Þetta er aðeins betra en það sem við höfðum stefnt að og sæmilega vel yfir núllinu,“ segir Jón.

Hann segir nýliðið ár, og þá sérstaklega tímabilið september til desember, hafa komið mjög vel út hjá Magasin og betur en menn hafi átt von á; þau markmið sem menn hafi sett sér hafi náðst og gott betur en það á sumum sviðum, eins og í veltunni.

Jón segir í viðtalinu við Børsen að það hafi ekki verið neitt áhlaupaverk að snúa við rekstri Magsin og líkir því við að gera við bíl sem er á ferð.

„Við hófum 18 mánaða aðgerðaáætlun í byrjun árs 2006 og á þeim tíma hefur 90% af vinnu okkar farið í að gera breytingar en 10% í að halda rekstrinum gangandi.“

Þremur verslunum Magasin hefur verið lokað á umræddu tímabili og gjaldfrestur til birgja hefur verið lengdur út 18 í 45 daga og þá hefur öllu tölvukerfi Magasin verið skipt út þar sem hið eldra var orðið algerlega úrrelt. Auk þess hafa um 32% af verslunarstarfseminni verið leigð út til utanaðkomandi aðila.