Síðastliðin föstudag opnaði Magasin nýja stórverslun í Field's í Ørestad í Kaupmannahöfn. Magasin verður til húsa í fyrri húsakynnum Debenhams. Magasin tók við stórversluninni Debenhams í Field's árið 2005 og fylgdi því leiga á 8.000 fermetra verslunarhúsnæði á tveimur hæðum í stærstu verslunarmiðstöð Norðurlanda. Nú rúmu ári síðar opnar þar sjötta verslun Magasin, segir í frétt á heimasíðu Baugs sem er stærsti hluthafinn í Magasin.

"Ákvörðunin um að loka Debenhams og opna Magasin var fyrst og fremst byggð á því, að það voru engar forsendur fyrir því að reka tvenns konar stórverslanir í Danmörku. Einfaldari uppbygging, minni rekstrarkostnaður og samhæfð markaðssetning eiga eftir að fela í sér mikinn sparnað," segir Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Magasin í fréttinni.

Framboðið í versluninni í Field's verður dæmigert fyrir þá vöruflokka sem Magasin býður upp á, en þar má nefna tískufatnað á herra og dömur, skó, barnaföt og hönnuð búsáhöld. Vöruúrval Magasin er bæði nútímalegt og í samræmi við nýjustu strauma og tísku.

"Ég er sannfærð um að nýja Magasin verslunin á eftir að efla ímynd Field's sem er alþjóðleg og nútímaleg verslunarmiðstöð. Með Magasin bætast við vörumerki í verslunarmiðstöðina, þar á meðal Sand, Marlene Birger og Mac. Þessi vörumerki hafa áður ekki fengist í Field's en eiga eftir að höfða til viðskiptavina okkar, " segir Marianne Christensen, forstjóri Field's í fréttinni.