*

laugardagur, 4. apríl 2020
Innlent 19. mars 2017 15:04

Magasin var skemmtilegasta verkefnið

Birgir Bieltvedt hefur verið umfangsmikill í fjárfestingum sínum undanfarin ár og hefur með þeim sett töluverðan svip á íslenskt og danskt viðskiptalíf.

Ásdís Auðunsdóttir
Haraldur Guðjónsson

Birgir Bieltvedt hefur verið umfangsmikill í fjárfestingum sínum allt frá árinu 2004, jafnt hér á landi sem erlendis, og velta félög þau sem hann er leiðandi fjárfestir í yfir 10 milljörðum króna og hjá þeim starfa yfir 1.000 manns. Í heildina reka félögin tæplega 50 veitingastaði og áætlað er að 25 nýir veitingastaðir opni á árinu, þar af 10 á Íslandi. Fjárfestingasaga Birgis spannar áhugaverða tíma í íslensku viðskiptalífi og sögu, allt frá þenslutímum til kreppuára. Rauði þráðurinn í viðskiptasögu Birgis er veitingakeðjan Domino´s sem hann kom að því að flytja til landsins árið 1993 en fjárfesti svo sjálfur í rúmum tíu árum seinna. Hann sagði þó fljótlega skilið við þá fjárfestingu þar sem önnur umfangsmikil verkefni erlendis kölluðu, þar á meðal víðfræg fjárfesting hans og Baugs Group í Magasin du Nord í Danmörku. Á árunum eftir efnahagskreppuna fjárfesti Birgir þó aftur í Domino´s á Íslandi, með það fyrir augum að færa starfsemi keðjunnar til Skandinavíu og er það verkefni nú vel á veg komið. Í dag er Birgir auk þess með fjölmörg járn í eldinum sem tengjast meðal annars fjárfestingum í íslenskum veitingastöðum og útrás Gló á komandi misserum.

Byggði viðskiptaveldi í Danmörku á árunum fyrir hrun

Er það rétt skilið að þín fyrsta raunverulega fjárfesting hafi átt sér stað árið 2004 þegar þú fjárfestir sjálfur í Domino´s og hvað olli því svo að þú sagðir skilið við þá fjárfestingu aðeins nokkrum mánuðum seinna?

„Jú, það er rétt að ég byrjaði í raun að fjárfesta fyrir alvöru á árunum 2004- 2005. Ég hafði alltaf átt smá hlut í Domino´s en eignaðist þarna stærri hlut í félaginu. Ástæðan fyrir því að ég seldi hins vegar hlutinn svo fljótt aftur var sú að ég hafði byrjað að fjárfesta í öðrum geirum í Danmörku og leiddi á þeim tíma m.a. fjárfestinguna í Magasin du Nord. Við fórum í það verkefni af fullum krafti og það lá fljótt fyrir að ég gat ekki verið að reka Domino´s á Íslandi á sama tíma og ég var að fjárfesta í fyrirtæki á borð við Magasin í Danmörku.

Það var alveg ótrúlegt hvernig þetta þróaðist þ.e.a.s. hvernig kaupin á Domino´s gengu upp á sama tíma og kaupin á Magasin. Það liðu ekki nema um það bil þrír mánuðir frá því að hugmyndin um kaupin á Magasin var sett fram og þar til þau lágu fyrir, sem er náttúrlega ótrúlegt því félagið er þjóðardjásn Dana og skráð hlutafélag á dönskum hlutfélagamarkaði. Það að okkur hafi tekist þetta á svona skömmum tíma er í rauninni einsdæmi, alla vega hér í Danmörku, og þetta var í rauninni allt mjög tilviljanakennt því ég hefði aldrei selt mig út úr Domino´s ef Magasin-kaupin hefðu ekki átt sér stað. Ég réðst í kaupin á Magasin í samstarfi við Baug og Straum sem og ýmsar aðrar fjárfestingar í Danmörku á borð við Illum og fatafyrirtækið Day. Ég tók svo sjálfur þátt í ýmsum öðrum fjárfestingum eins og Joe & the Juice en þegar ég kom inn í það fyrirtæki voru staðirnir aðeins tveir. Það var því ýmislegt í gangi á þessum tíma en þetta „veldi“ í Danmörku hrundi svo eins og margt annað í kjölfar kreppunnar og fjármálahrunsins.“

Stoltastur af Domino´s og Magasin

Ef þú lítur til baka því það hefur ýmislegt gengið á frá árinu 2004, er eitthvað sérstakt verkefni sem þú ert stoltastur af?

„Það hefði engan grunað að okkur myndi takast að kaupa Magasin í Danmörku og hvað þá á þetta skömmum tíma. Ég held að það sé eitthvað sem maður muni alltaf líta til baka á sem frábæran tíma enda tókst okkur þar að eignast félag sem hafði gríð- arlega miklar rætur í dönsku viðskiptalífi. Það er auðvitað eitthvað sem maður lítur til baka á svolítið stoltur og það hefði ekki verið hægt nema vegna þess hversu hratt Íslendingar á þessum tíma unnu og gátu tekið ákvarðanir á skömmum tíma. En svona þegar maður lítur yfir þessi ár þá er Domino´s auðvitað alltaf rauði þráðurinn. Ég er einn af fáum innan Domino´s sem hafa byrjað á fimm mörkuðum frá grunni, þess vegna má segja að ég sé stoltastur af því en Magasin var án efa skemmtilegasta verkefnið.“

Viðtalið við Birgi má lesa í heild sinni í nýjasta Tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Dominos Gló Birgir Bieltvedt