Ef verið væri að hanna skjaldarmerki Íslands í dag er áhugavert að velta fyrir sér hvort kjúklingar og svín séu ekki búin að vinna sér þegnrétt meðal landvættanna. Svo sterk tilfinning virðist vera fyrir stöðu þeirra í íslensku hagkerfi. Jafnvel að íslenska kýrin eigi erindi þangað líka. Þegar stefna stjórnvalda gagnvart vörugjöldum og tollum er skoðuð sést að neyslustýring er enn sterkur þáttur í opinberri skattlagningu og litlar horfur á að það breytist í bráð.

Þrátt fyrir að allir stjórnmálaflokkarnir telji vörugjöld úrelta skattheimtu sem stuðli að neyslustýringu og óskilvirkri innheimtu virðast breytingar torsóttar. Ekki þarf að taka fram að andstaða meðal samtaka atvinnurekenda er mikil og Samtök atvinnulífsins telja vörugjöld forneskjulegan og óhagkvæman skatt. Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa lengi barist gegn því að vörugjöld séu lögð á matvæli, raftæki, húsbúnað og byggingavörur og enn dugar að nefna nafnið eitt til að hleypa stórkaupmönnum upp!

Margir virðast telja að ástandið hafi færst í ásættanlegt horf 1. mars á síðasta ári þegar ákveðin vörugjöld voru lækkuð samhliða lækkun á virðisaukaskatti á matvælum. Eins og kemur fram í meðfylgjandi viðtali við fjármálaráðherra þá telur hann að málin séu í ásættanlegum farvegi og vissulega er hægt að segja að þeim hafi þokað lítillega áfram.

Það breytir ekki þeirri staðreynd að þegar rætt er við fulltrúa verslunar- og þjónustufyrirtækja - að ekki sé talað um fulltrúa hreinna innflutningsfyrirtækja blasir við önnur mynd. Þannig hafa ákveðnir innflytjendur rætt sín á milli um tillögur sem þeir segja að geti leitt til lækkunar á matarkostnaði almennings sem nemur að lágmarki 8,5 milljörðum króna.

Á sama tíma telja bifreiðainnflytjendur og hagsmunasamtök bílaeigenda að nauðsynlegt sé að stokka upp í vörugjöldum bifreiða og samsetningu eldsneytisgjalds. Þannig megi stöðva skattlagningu þá sem helsta samgöngutæki landsmanna búi við og hindra neyslustýringu. Í september síðastliðnum fjallaði Viðskiptablaðið um vörugjöld þar sem sjónum var einkum beint að áhrifum þeirra á „hvíta vöru“ eða raftækjamarkaðinn.

Í helgarblaði Viðskiptablaðsins er að finna úttekt á áhrifum vörugjalda. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .