Kanadíska jarðhitafyrirtækið Magma Energy (Magma), Orkuveita Reykjavíkur (OR), Hafnarfjarðarbær og Sandgerðisbær hafa lokið viðskiptum vegna kaupa Magma á 32,32% hlut í HS Orku. Magma á nú 40,94% hlut í HS Orku og þess er vænst að samningum um kaup fyrirtækisins á 2,16% hlut til viðbótar í HS Orku ljúki í mars á næsta ári.

Ennfremur á Magma kauprétt á frekari hlut í HS Orku með hlutafjáraukningu að upphæð 15 milljón dollarar fyrir 1. nóvember 2011.

Í fréttatilkynningu Glacier Partners, sem voru ráðgjafar Magma ásamt Capacent Glacier vegna kaupanna á hlutnum í HS Orku, segir að kaupverðið á hlut OR, Hafnafjarðar og Sandgerðis í HS Orku sé um 12,5 milljarðar króna. Greiðir Magma um 30% kaupverðsins með peningum, eða um 3,7 milljarða króna, og afganginn með þremur skuldabréfum, samtals að verðmæti um 8,7 milljarðar króna. Skuldabréfin bera 1,52% vexti, að viðbættri hækkun á álverði, og greiðast upp eftir sjö ár í einni greiðslu.

Áður hafði Magma keypt rúmlega 8% hlut af Geysi Green Energy og greitt fyrir hann rúmlega 2,5 milljarða króna. Kaup Magma í HS Orku er fyrsta stóra erlenda fjárfestingin í íslensku atvinnulífi í nokkurn tíma og munu hafa áhrif til styrkingar á íslensku krónunni.

Ross J. Beaty, stofnandi, stjórnarformaður og forstjóri Magma Energy segist mjög ánægður að loknum þessum viðskiptum. Hann segir að menn muni nú einbeita sér að því að auka orkuframleiðslu HS Orku um 230 MW fram til ársins 2015.

„Margir hafa verið efins vegna þátttöku okkar. Ég virði þau sjónarmið en er sannfærður um að flestir Íslendingar munu átta sig á því að þetta eru hagkvæm viðskipti fyrir Ísland.“

Capacent Glacier og Glacier Partners, sem voru ráðgjafar Magma í málinu, eru óháð ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfa sig í almennri fyrirtækjaráðgjöf á Íslandi sem og alþjóðlega á sviði sjávarútvegs og jarðhita. Lögfræðistofa Reykjavíkur annaðist lögfræðilega ráðgjöf og Mannvit verkfræðistofa annaðist tæknilega áreiðanleikakönnun. Þá var Arctica Finance ráðgjafi seljenda.