Kanadíska jarðvarmafyrirtækið Magma Energy Corp. hefur stofnað dótturfélag á Íslandi, Magma Energy Iceland ehf.

Ásgeir Margeirsson, sem stýrði Geysi Green Energy þar til í desember síðastliðnum, hefur verið ráðinn forstjóri Magma á Íslandi. Fjórir aðrir fyrrum starfsmenn Geysis Green Energy fylgja Ásgeiri yfir í hið nýstofnaða fyrirtæki.

Magma Energy Corp á 40,94 prósenta hlut í HS Orku í gegnum sænskt dótturfélag sitt. Fyrirtækið á ennfremur kauprétt á 2,16 prósentum til viðbótar í HS Orku.

Magma Energy Iceland hefur þegar tekið á leigu húsnæði við Hafnargötu í Reykjanesbæ undir höfuðstöðvar sínar. Stefnt er að því að starfsmenn fyrirtækisins sinni verkefnum Magma á Íslandi en muni auk þess koma að jarðhitaverkefnum Magma Energy um heim allan.