Kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy hefur lokið hlutafjárútboði til að fjármagna kaupin á hlut í HS Orku.

Alls voru gefnir út um 11,6 milljónir hluta sem seldir voru á 1,85 kanadíska dali á hlut. Heildarverðmæti útboðsins nemur því um 21,5 milljónum kanadískra dala eða rúmum 2,5 milljörðum íslenskra króna.

Samkvæmt tilkynningu frá Magna keypti Ross Beaty, forstjóri félagsins um 25% hlut þess sem boðið var upp á í útboðinu. Samkvæmt skilmálum útboðsins eru 4 mánaða binditími á bréfunum, þ.e. þeir sem keyptu í útboðinu mega ekki selja bréfin í fjóra mánuði eftir útboðið.

Fjármögnunin sem fæst með hlutafjárútboðinu verður að sögn Magma notuð til að kaupa 8,62% hlut í HS Orku af Geysir Green Energy (sem áður keypti hlutinn af Reykjanesbæ).

Upphaflega var gert ráð fyrir að Magma myndi kaupa 10,8% hlut af Geysi Green og 32,2% hlut af Orkuveitunni og Hafnarfjarðarbæ.

Fram kemur í tilkynningu Magma að gengið verður frá restinni af kaupunum í nóvember.