Magma Energy Corp. hefur lokið við 4,8 milljarða króna hlutafjárútboð, jafnvirði 40 milljóna Kanadadala. Forstjóri og stjórnarformaður félagsins, Ross Beaty, lánar félaginu jafnframt 1,2 milljarða króna á 8% vöxtum. Þar með hefur félagið lokið við fjármögnun dótturfélagsins Magma Energy Sweden á ríflega helmingshlut í HS Orku af Geysi Green Energy (GGE).

Kaupverðið hlutarins er um sextán milljarðar króna sem verður greitt með reiðufé fyrir tíu milljarða króna og yfirtöku á 6,3 milljarða skuldabréfi sem var gefið út af Reykjanesbæ í fyrra þegar félagið seldi hlut sinn í HS Orku til GGE. Magma hefur rétt til að greiða hluta kaupverðsins með eigin hlutabréfum á markaðsgengi en ákvörðun liggur ekki fyrir hvort sá réttur verði nýttur fyrr en í lok júlí. Sú fjárhæð gæti orðið 3,1 milljarður króna og myndi Geysir því mögulega eignast 7% hlut í kanadíska félaginu.

-Nánar í Viðskiptablaðinu