Magma Energy Corp, eigandi HS Orku á Íslandi, tilkynnti í dag að fyrirtækið sé að sameinast bandaríska orkufyrirtækinu Plutonic Power Corporation. Hið sameinaða fyrirtæki mun heita Alterra Power Corp. Ross Beaty, stofnandi og aðaleigandi Magma, verður stjórnarformaður Alterra Power.

Breiðari grunnur til stækkunar

Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður HS Orku og einn aðstoðarforstjóra hjá Magma,segir sameininguna hið besta mál. Að hans sögn er Plutonic töluvert minna fyrirtæki en Magma og 2/3 hlutar af Alterra verði sú starfsemi sem áður tilheyrði Magma. „Þetta þýðir breiðari grunnur og möguleikar til frekari stækkunar á sviði vatnsafls-, vind- og sólarorku líka. Það er ekki verið að draga úr áherslum á jarðhitaorku eða Íslands, heldur er verið að styrkja félagið. Markmiðið er fyrst og fremst að félagið stækki til að lækka fjármagnskostnað sem gerir félagið öflugra.“

Í viðræðum við lífeyrissjóði

Magma Energy á 98% hlut í íslenska orkufyrirtækinu HS Orku. Kaup Magma á fyrirtækinu hafa orsakað miklar deilur í samfélaginu og í íslenskum stjórnmálum. Forsvarsmenn Magma hafa að undanförnu átt í þríhliða viðræðum við íslensk stjórnvöld og íslenska lífeyrissjóði um að sjóðirnir kaupi að minnsta kosti fjórðung í HS Orku og að leigutími á nýtingarrétti auðlinda fyrirtækisins verði styttur umtalsvert.