Með sölu á svonefndu Magma-skuldabréfi, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, myndi lausafjárstaða fyrirtækisins styrkjast umtalsvert, að mati greinenda matsfélagsins Reitunar. Haft er eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag að skuldabréfið sé til sölu og nokkrir fjárfestar hafi sýnt því áhuga.

Bókfært virði skuldabréfsins lækkaði um 2,2 milljarða króna, eða tæp 23%, í fyrra og var 7,5 milljarðar í lok árs 2013. Höfuðstóll skuldabréfsins er vísitölutengdur álverðsvísitölu og því hefur lágt álverð bein áhrif á virði þess.

Orkuveitan eignaðist skuldabréfið þegar Magma Energy keypti hlut Orkuveitunnar í HS Orku árið 2009. Samkvæmt Planinu, aðgerðaáætlun OR, er reiknað með að bréfið verði greitt upp á gjalddaga í desember 2016. Bjarni segir þó í samtali við Morgunblaðið að ef gott tilboð berst, þá verði bréfið selt.