Ný könnun frá Creditinfo Íslandi sýnir að frá árinu 2005 hefur magn innlendra frétta í helstu fjölmiðlum aukist um tæplega þriðjung og vegar þar mest aukin útgáfa dagblaðaefnis.

Þannig hefur Viðskiptablaðið aukið útgáfudaga sína úr tveimur dögum í fimm árið 2007, DV breyttist í helgarblað árið 2005 en fjölgaði aftur útgáfudögum árið 2006 og 24 Stundir (áður Blaðið) hefur aukið efni í sínu blaði verulega.

Niðurstöður sýna að magn frétta hefur aukist jafnt og þétt á ári, að undanskildu því ári sem DV varð að helgarblaði um tíma árið 2006.

Í upplýsingum frá Creditinfo segir að meðaltalsfjöldi innlendra frétta tímabilið janúar til júní 2008 er 10.693 fréttir á mánuði.

Í ljósvakamiðlum eru aðalfréttatímar mældir, þ.e. þrír hjá Fréttastofu Útvarps, tveir hjá Fréttastofu Sjónvarps og tveir hjá Stöð 2.

Hlutdeild ljósvakaefnis mælist ár frá ári um 20% og dagblaðaefnis um 80%. Fyrstu 6 mánuði ársins 2008 mælist hlutdeild ljósvakafrétta 18% ljósvakafréttir og dagblaðaefnis 82%. Þróun á magni frá árinu 2005: mynd sýnir fjölda frétta/greina miðað við 6 mánaðar tímabil ár hvert. Samkvæmt könnuninni mælist könnuninni mælist Morgunblaðið með mestu hlutdeild dagblaða en minnkar þó nokkuð í hlutdeild samanborið við síðustu ár. Þannig er hlutdeild Morgunblaðsins nú 33% í samanburði við 37 – 40% árin 2005 – 2007.

Fréttablaðið fer úr 32% hlutdeild árið 2007 í 30% nú en bæði Fréttablaðið og Morgunblaðið hafa minnkað magn innlendra frétta frá því í fyrra.

Smærri dagblöðin auka hins vegar magn umfjöllunar og þar með hlutdeild sína í dagblöðum. Mest eykur 24 stundir við sína hlutdeild, fer úr 12% í 17% og sem dæmi um aukningu á efni í 24 stundum mælist það nú með 11.048 innlendar fréttir á tímabilinu janúar til júní 2008 en á sama tímabili á árinu 2006 mældust 7.160 innlendar fréttir í Blaðinu.

Þá eykur Viðskiptablaðið hlutdeild sína úr 7 í 8% á milli ára, hafði mælst í 4% – 5% þegar útgáfudagar voru aðeins tveir í viku. DV hefur sveiflast mest í hlutdeild á milli ára, stendur nú í 12% hlutdeild miðað við fimm útgáfudaga í viku.