Magna International Inc. sem er í samstarfi við hinn rússneska Sberbank að kaupa samtals 55% hlut í Adam Opel GmbH í Þýskalandi, hyggst fækka starfsmönnum verulega. AP fréttastofan hefur það eftir háttsettum stjórnanda hjá Magna að allt að 10.500 af 25.000 starfsmönnum Opel verði sagt upp.

Ríkisstjórn Þýskalands hefur verið umhugað um að reynt yrði að verja störfin í Opel, enda kosningar framundan. Fyrirtækið sem verið hefur í eigu GM síðan 1929.

Stjórnendur GM hafa lengi velt vöngum yfir sölunni til Magna þar sem rússneski bakhjarlinn er sagður í nánu samstarfi við rússneska bílaframleiðandann GAZ. Búist er við að Sberbank framselji 27,5% hlut sínum beint til rússneska bílaframleiðandans OAO GAZ Group.

Stjórn GM skoðaði því möguleika á að selja RHJ International SA í Brussel hlutina í Opel. Ekkert varð af því og á fimmtudag í síðustu viku samþykkti stjórn GM að ganga til samninga við Magna. Mun Magna í samstarfi við Sberbank leggja fram 730 milljónir dollara fyrir 55% hlutinn í Opel.

Í samkomulaginu mun vera gert ráð fyrir að starfsmenn eignist 10% í því sem kallað er Nýja-Opel. Gera forsvarsmenn Magna ráð fyrir að Opel verði farið að skila hagnaði árið 2011 og verði búið að greiða upp sín lán á árinu 2014.