Gistinætur á hótelum hérlendis voru um 413.300 í ágúst, miðað við bráðabirgðatölur Hagstofunnar . Um er að ræða aukningu um 134% frá sama mánuði í fyrra þegar fjöldi gistinátta var um 177 þúsund talsins. Fjöldi gistinátta á hótelum í síðasta mánuði var um 79% af fjöldanum í ágúst 2019 sem voru 522.900 talsins.

Áætlaðar gistinætur útlendinga hafi fjórfaldast á milli ára og voru um 347 þúsund. Gistinætur Íslendinga fækkuðu hins vegar um 29% frá fyrra ári og voru um 66 þúsund í síðasta mánuði.

Rúmanýting er áætluð um 63,6% í síðasta mánuði. Það er um tvöfalt betri nýting en í ágúst 2020 þegar rúmanýting var 31,0% en hún var hins vegar 71,5% árið 2018.

„Magnaðar tölur. MAGNAÐAR tölur.“ skrifar Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri og hagfræðingur Viðskiptaráðs, um tölfræðina og setur tölurnar í samhengi við ágústmánuði síðustu ára.

Hagstofan áréttar að um sé að ræða bráðabirgðatölur og segir að þær liggi á 95% öryggismörkum. Einnig séu miklar breytingar að eiga sér nú stað á framboði á hótelrýmum sem eykur mjög óvissu í bráðabirgðamati á fjölda gistinátta. Því ber að taka þessum áætluðu bráðabirgðatölum um fjölda gistinátta á hótelum í ágúst með sérstökum fyrirvara þar til endanlegar tölur verða birtar í lok september.