*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Innlent 30. desember 2020 12:01

Magnaður uppgangur Davíðs og Unity

Vöxtur Unity, sem Davíð Helgason stofnaði ásamt tveimur vinum sínum árið 2004, hefur verið ævintýralegur undanfarin misseri.

Sveinn Ólafur Melsted
Davíð Helgason.
Heiða Halls

Vöxtur Unity Technologies, fyrirtækisins sem Davíð Helgason stofnaði í kjallara í Kaupmannahöfn ásamt tveimur vinum sínum árið 2004, hefur verið ævintýralegur undanfarin misseri. Félagið var skráð í kauphöll New York um miðjan september á þessu ári og nam útboðsgengi félagsins 52 Bandaríkjadölum á hlut. Útboðsgengið hafði hækkað ítrekað dagana á undan en upphaflega stóð til að útboðsgengið yrði á bilinu 34-42 dalir á hlut. Virði félagsins að loknu hlutafjárútboði nam 13,7 milljörðum dala eða sem nemur um 1.720 milljörðum króna. Á fyrsta viðskiptadegi hlutabréfa Unity hækkaði gengi þeirra um 30% og hækkaði markaðsvirði félagsins þar með upp í 18 milljarða dala.

Bréfin hafa haldið áfram að vera á miklu flugi og þegar þetta er skrifað stendur gengi hlutabréfa félagsins í 158 dölum á hlut. Þar af leiðandi nam markaðsvirði félagsins tæplega 43 milljörðum dala og hefur því markaðsvirði Unity ríflega þrefaldast frá því um miðjan september. Unity er þegar þetta er skrifað orðið verðmætara en stórfyrirtæki á borð við Twitter, Ford og Ebay, en öll þessi fyrirtæki eru hluti af S&P 500 úrvalsvísitölunni vestanhafs.

Í fjármögnunarumferð á síðasta ári var Unity metið á um sex milljarða dala, eða sem nemur um 757 milljörðum króna. Virði Unity hefur því ríflega sjöfaldast á rúmlega einu ári.

Unity birti nýlega árshlutauppgjör í fyrsta sinn sem skráð félag þar sem kom fram að tap félagsins nam um tuttugu milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi 2020. Tekjur jukust um ríflega helming á milli ára og námu tæplega 28 milljörðum króna á fjórðungnum sem var umfram væntingar greinenda. Unity hefur, enn sem komið er, aldrei skilað hagnaði.

Hlutur Davíðs metinn á 211 milljarða

Davíð á sjálfur 10,4 milljónir hluta í Unity, sem samsvarar um 4% hlut í félaginu. Virði eignarhlutar hans, miðað við fyrrnefnt gengi Unity, er því ríflega 1,6 milljarðar dala, eða sem nemur um 211 milljörðum króna. Til að setja þessa upphæð í samhengi má nefna að markaðsvirði Arion banka, sem er næst verðmætasta skráða fyrirtækið á Íslandi, er um 160 milljarðar króna.

Davíð situr í stjórn félagsins og er eignarhluti hans og Joachims Ante, annars af meðstofnendum hans að Unity, í sama félaginu, OTEE 2020, sem fer samanlagt með 11,2% í félaginu. Ante starfar enn sem yfirmaður tæknimála hjá félaginu en Unity hét í upphafi Over the Edge Entertainment. Í gögnum sem birt voru í kringum skráninguna kom fram að þeir myndu taka sameiginlega ákvörðun um hvernig atkvæðarétti OTEE 2020 yrði ráðstafað á hluthafafundum. Væru þeir ósammála sætu þeir hjá við atkvæðagreiðslur.

Á síðustu árum hefur Davíð einna helst einbeitt sér að fjárfestingum í nýsköpunarfyrirtækjum. Fyrir um tveimur árum sagði hann frá því í viðtali við Viðskiptablaðið að hann hefði fjárfest í um það bil fimmtíu sprotaverkefnum víða um heim. Þar á meðal hefur hann fjárfest í nokkrum íslenskum fyrirtækjum á borð við Plain Vanilla, Teatime, Klang Games, Genki Instruments sem og danska vínforritinu Vivino, þar sem Birkir A. Barkarson stýrir tæknimálunum. Þá kvaðst hann jafnframt vera í tengslum við nokkur hundruð sprotafyrirtæki sem hann veitti ráðgjöf. Davíð er einnig meðeigandi í fjárfestingafélaginu Nordic Maker en umrætt fjárfestingafélag hefur meðal annars fjárfest í heimsendingafyrirtækinu Just Eat, Zendesk og Unity. Nákvæm fjárhæð yfir auðæfi Davíðs, að eignarhlutnum í Unity undanskildum, liggur hins vegar ekki fyrir.

Björgólfur Thor Björgólfsson, sem hefur um langa hríð verið ríkastur allra Íslendinga, er samkvæmt auðmannalista Forbes metinn á um 2,3 milljarða dala. Í krónum talið eru auðæfi Björgólfs metin á tæplega 295 milljarða króna, sem er um 40% meira en hlutur Davíðs í Unity er metinn á. Björgólfur er, þegar þetta er skrifað, 1.277. ríkasti einstaklingur heims samkvæmt lista Forbes. Auðæfi hans voru metin á um 3,5 milljarða dollara þegar best lét árið 2007.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.                                     

Stikkorð: Davíð Helgason Unity