*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Innlent 30. júní 2020 19:51

Magnbundin íhlutun heldur áfram

Heildarkaup Seðlabankans á skuldabréfum ríkissjóðs geta numið allt að 20 milljörðum króna á 3. ársfjórðungi 2020.

Ritstjórn
Ásgeir Jónsson er 21. einstaklingurinn til að gegna embætti seðlabankastjóra Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Seðlabankinn hefur tilkynnt að heildarkaup bankans á skuldabréfum ríkissjóðs, fyrir þriðja ársfjórðung 2020, geta numið allt að 20 milljörðum íslenskra króna að kaupverði. Frá þessu er greint á vef Seðlabankans.

Fyrir annan ársfjórðung var tilkynnt að heildarkaup bankans gætu numið allt að 20 milljörðum að kaupverði en heildarkaup bankans á tímabilinu nam 892,3 milljónum króna.

Samkvæmt fyrrgreindri ákvörðun peningastefnunefndar getur heildarfjárhæð skuldabréfakaupa bankans numið allt að 150 milljarða. Framkvæmd kaupanna er með þeim hætti að Seðlabankinn tilkynnir fyrirfram um hámarks fjárhæð skuldabréfakaupa á hverjum ársfjórðungi.

Seðlabanki Íslands hóf í byrjun maí 2020 kaup skuldabréfa ríkissjóðs á eftirmarkaði í samræmi við yfirlýsingu peningastefnunefndar bankans frá 23. mars 2020. Markmið kaupanna er að tryggja miðlun peningastefnunnar út vaxtarófið til að slakara taumhald peningastefnunnar skili sér með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja.

Seðlabankinn mun áfram inna kaupin af hendi með því að leggja fram tilboð í viðskiptakerfi Kauphallar Nasdaq. Einnig er mögulegt að bankinn tilkynni um kaup með útboðsfyrirkomulagi.